Innlent

Koma fyrir mælitækjum vegna mögulegrar gasmengunar í Vogum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fimm loftgæðamælar eru á höfuðborgarsvæðinu sem geta mælt brennisteinsdíoxíðmengun. Aðeins einn mælir hefur verið á Reykjanesskaga en Umhverfisstofnun hefur nú komið fyrir búnaði í Vogum vegna möguleikans á eldgosi.
Fimm loftgæðamælar eru á höfuðborgarsvæðinu sem geta mælt brennisteinsdíoxíðmengun. Aðeins einn mælir hefur verið á Reykjanesskaga en Umhverfisstofnun hefur nú komið fyrir búnaði í Vogum vegna möguleikans á eldgosi. Vísir/Vilhelm

Búnaður til að mæla styrk brennisteinsdíoxíðs hefur verið komið fyrir í Vogum vegna möguleikans á að gos hefjist í nágrenni Keilis á Reykjanesskaga. Umhverfisstofnun ætlar að setja upp mæla á fleiri stöðum á Reykjanesi eins fljótt og mögulegt er.

Mögulegur gosórói hefur komið fram á jarðskjálftamælum sunnan við Keili í dag. Talið er að eldgos þar yrði hraungos úr sprungu. Gosi fylgdi líklega gasmengun, fyrst og fremst brennisteinsdíoxíðmengun líkt og í gosinu í Holuhrauni árið 2014.

Þorsteinn Jóhannson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar í loftgæðum, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að brennisteinsdíoxíð væri óæskilegt fyrir fólk með öndunarfærasjúkdóma eins og astma en ekki lífshættulegt nema mögulega vísindamönnum að störfum alveg við eldstöð. 

Sagði Þorsteinn enga ástæðu fyrir fólk að kaupa gasgrímur til að verjast mögulegri gasmengun. Hefðbundnar grímur eins og þær sem fólk notar vegna kórónuveirufaraldursins væru gagnslausar gegn gasmengun.

Höfuðborgarsvæðið væri ágætilega sett með fimm loftgæðamæla til að fylgjast með gasmengun ef gos hefst. Aðeins einn mælir væri hins vegar á Suðurnesum, mælir HS Orku í Grindavík. Verið væri að kanna hvernig þétta mætti net loftgæðamæla.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun í kvöld kemur fram að loftgæðamæli hafi verið komið fyrir í Vogum til að mæla brennisteinsdíoxíð og að slíkum tækjum verði komið fyrir í fleiri sveitarfélögum á svæðinu á næstunni.

Á vef stofnunarinnar má finna frekari upplýsingar um áhrif gasmengunar á heilsufar fólks og ráðlegginar um viðbrögð við brennisteinsmengun frá eldgosum. Þorsteinn mælti með því í kvöldfréttum að fólk héldi sig innandyra ef gasmengunar yrði viðvart. Það ætti að forðast að reyna á sig utandyra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×