Vítakeppnin kom Ómari á óvart

Ómar Ingi Magnússon skoraði sigurmarkið af vítalínunni.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sigurmarkið af vítalínunni. Ljósmynd/@SCMagdeburg

Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, tryggði á miðvikudagskvöldið Evrópumeisturum Magdeburg sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þegar hann skoraði úr úrslitavítakasti gegn Kielce frá Póllandi.

Það var annað vítakast Ómars í vítakeppninni, sem gripið var til þar sem liðin voru jöfn samanlagt, 49:49, eftir tvo leiki liðanna í átta liða úrslitunum.

Ómar sagði í viðtali við Valtý Björn í þættinum Mín skoðun að hann hefði ekki verið með allt á hreinu varðandi framkvæmd vítakeppninnar, enda ekki farið í margar slíkar á ferlinum.

„Ég vissi ekki að það væri farið beint í vítakeppni eftir að leiknum lauk og það kom mér á óvart," sagði Ómar Ingi.

Þegar staðan var enn jöfn eftir fimm vítaköst á lið máttu sömu leikmenn skjóta aftur og það kom Ómari líka á óvart. Spurður hvernig honum leið fyrir seinna vítakasti sem gat tryggt Magdeburg sæti í undanúrslitum sagði hann:

„Ég var ekki mikið að hugsa um annað en markvörðinn, það var smá skák á milli okkar. Síðan var ég fyrst og fremst feginn að ná að skora og klára þetta," sagði Ómar Ingi.

Viðtalið í heild má heyra í þættinum Mín skoðun en það hefst eftir um það bil sex mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert