Enn bætir Forest við sig

Gustavo Scarpa.
Gustavo Scarpa. Ljósmynd/Nottingham Forest

Sóknarsinnaði miðjumaðurinn Gustavo Scarpa er genginn til liðs við enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest frá Palmeiras í heimalandi sínu, Brasilíu.

Brassinn, sem er 28 ára gamall. gengur formlega í raðir félagsins 1. janúar 2023 og gerir samning til ársins 2026. Hann lék 211 leiki fyrir Palmeiras á fjórum tímabilum og skoraði 37 mörk en samningur hans rann út í nóvember. 

Á síðasta tímabili hjálpaði hann Palmeiras að vinna sinn 11 deildartitil og vann gullboltann sem besti leikmaður tímabilsins.  

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað. Þetta er ný áskorun og ég get ekki beðið eftir að spila minn fyrsta leik. Það hefur alltaf verið markmiðið mitt að spila í Evrópu og hvað þá í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Scarpa meðal annars í samtali við félagið. 

Þetta er 22 leikmaðurinn sem Forest fær í sínar raðir á þessu tímabili. Liðið situr sem er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 13 stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert