Nýjar reglur um stuðningsþjónustu samþykktar

Nýju reglurnar leggja ríkari áherslu á samvinnu við umsækjanda, þar …
Nýju reglurnar leggja ríkari áherslu á samvinnu við umsækjanda, þar sem stuðningsþörf verður ekki lengur metin á grundvelli stiga, sem segja til um fjölda klukkustunda sem viðkomandi hefur rétt á. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýjar reglur um stoð og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir voru samþykktar á fundi Borgarráðs í gær og munu þær taka gildi 1. febrúar á næsta ári. Samhliða því var fjárheimild velferðarsviðs aukin um 100 milljónir króna, m.a. til að hægt sé að vinna á biðlistum eftir stuðningsþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Nýju reglurnar leggja ríkari áherslu á samvinnu við umsækjanda, þar sem stuðningsþörf verður ekki lengur metin á grundvelli stiga, sem segja til um fjölda klukkustunda sem viðkomandi hefur rétt á, heldur í samtali umsækjanda og ráðgjöf um þörf á þjónustu. Er þessi nálgun talin veita meiri sveigjanleika. Þá hefur umsóknarferlið einnig verið einfaldað í formi stafrænna lausna.

Nýjar reglur taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna

Breytingarnar eru í samræmi við nýja velferðarstefnu borgarinnar sem kveður á um heildstæðari og einstaklingsmiðaðri þjónustu, sem á að styðja við sjálfstætt og innihaldsríkt líf fatlaðs fólks á heimili og í tómstundum.

„Nýju reglurnar eru í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þær taka jafnframt mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en í honum segir meðal annars að skapa eigi fötluðu fólki skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum,“ segir í tilkynningunni.

Stuðningur við einstaklinga með heilabilun

Á fundinum voru nýjar reglur um stuðningsþjónustu við eldri borgara einnig samþykktar og fjárheimild velferðarsviðs aukin um 36 milljónir til að sinna þróunarverkefni um stuðning við einstaklinga með heilabilun.

Þá voru samþykktar nýjar reglur um beingreiðslusamninga og breytingar á reglum um félagslegt leiguhúsnæði.

Hægt er að nálgast fundargerðina ásamt fylgigögnum með tillögunum á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert