Skjárinn er hérna til þess að nota hann

Kylian Mbappé í baráttunni við þá Gavi, Sergio Busquets og …
Kylian Mbappé í baráttunni við þá Gavi, Sergio Busquets og Cesar Azpilicueta í Mílanó í gær. AFP

Cesar Azpilicueta, varnarmaður Chelsea og spænska landsliðsins í knattspyrnu, var afar ósáttur með að sigurmark Frakka hefði fengið að standa í úrslitaleik Spáns og Frakklands í Þjóðadeild UEFA á San Siro-vellinum í Mílanó á Ítalíu í gær.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Frakklands en Kylian Mbappé skoraði sigurmark leiksins á 80. mínútu eftir stungusendingu frá Theo Hernández.

Mbappé var langt fyrir innan þegar sendingin kom en hann var ekki dæmdur rangstæður þar sem Eric Garcia, varnarmaður Spánverja, reyndi að komast inn í sendinguna og tókst að snerta boltann áður en hann barst til Mbappé.

„Dómarinn er þarna til þess að taka ákvarðanir og það sem fer mest í taugarnar á mér er að það var dómarinn í VAR-herberginu sem tók þessa ákvörðun,“ sagði Azpilicueta í samtali við Sky Sports í leikslok.

„Skjárinn á vellinum er til þess að nota hann og ég skil bara ekki af hverju Anthony Taylor fer ekki sjálfur í skjáinn og skoðar atvikið. Það er dómarinn á vellinum sem er í takt við leikinn, ekki sá sem situr í VAR-herberginu,“ sagði Azpilicueta pirraður í leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert