„Stærri tíðindi en fólk áttar sig á“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir breytt eðli faraldursins kalla á breytta …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir breytt eðli faraldursins kalla á breytta aðferðafræði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stefnu stjórnvalda í faraldrinum vera að taka miklum breytingum. Verður ekki lengur stuðst við aðferðafræði temprunar, sem gengur út á að hemja fjölgun smita, heldur verður horft til þess að taka fyrstu skrefin í átt að opnun samfélagsins.

Er breytingin á sóttkví sem boðuð var í dag meðal annars til marks um það.

„Þessi breyting, þessi einstaka breyting, felur í sér ákveðna eðlisbreytingu á þeim aðgerðum sem við höfum verið að beita í baráttunni við faraldurinn og endurspeglar breytt eðli veirunnar og breytt eðli faraldursins. Þannig að ég myndi telja að þessi aðgerð feli kannski í sér miklu stærri tíðindi en fólk áttar sig á því þetta hefur verið grundvöllur okkar aðgerða – þessi yfirgripsmikla sóttkví, einangrun og smitrakning – sem við höfum verið að beita.“

„Ég held að þessi breyting muni létta mjög á þessu samfélagi,“ segir Katrín og nefnir þá sérstaklega stétt kennara og skólastjórnenda sem hafa verið undir rosalegu álagi en stór hluti þeirra sem sæta nú sóttkví er börn á grunnskólaaldri.

Katrín Jakobsdóttir í Ráðherrabústaðnum í hádeginu.
Katrín Jakobsdóttir í Ráðherrabústaðnum í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt skref í einu

Þrátt fyrir að gögn gefi til kynna bjartari tíma fram undan útilokar Katrín þó ekki bakslag. Smitum gæti fjölgað hratt og þó að innlagnarhlutfallið sé lágt þá mun ávallt einhver hluti þeirra sem sýkjast koma til með að þurfa að leggjast inn.

Vonar hún að afléttingarnar muni ekki koma til með að kaffæra heilbrigðiskerfið.

„Þess vegna erum við að taka eitt skref í einu og þess vegna ætlum við að nýta núna vikuna í að skoða næstu skref.“

Ekki mistök að herða

Á föstudaginn er búist við að heilbrigðisráðherra muni boða enn frekari afléttingar á þeim samkomutakmörkunum sem eru í gildi en einungis ein og hálf vika er liðin frá því að aðgerðir voru síðast hertar og tíu manna samkomutakmörkun tók gildi.

Aðspurð segir Katrín það ekki hafa verið mistök að herða á þeim tímapunkti ef tekið er mið af þeim gögnum og forsendum sem lágu fyrir þá. Hins vegar sé nú komið í ljós að spá um innlagnarhlutfall hafi ekki gengið eftir og því tími til að endurskoða stöðuna.

„Ég held að við séum öll sammála um að þær forsendur hafi ekki gengið eftir. Það blasir við. Það sem er verkefni heilbrigðisráðherra núna er að meta stöðuna upp á nýtt. Við erum með spítalann á neyðarstigi, meðal annars vegna mikilla fjarvista starfsmanna í einangrun og sóttkví. Almannavarnir eru líka á neyðarstigi í samfélaginu. Þannig að nú þarf að fara yfir þetta heildstætt og skoða í raun og veru forsendurnar til frekari afléttinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert