fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Heimilisofbeldi á Grundarfirði – „Ófyrirleitin“ árás –  Maðurinn fyrst sýknaður

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 14. september 2021 17:07

Árásin átti sér stað á Grundarfirði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona frá Ítalíu, búsett hér á landi, sem varð fyrir líkamsárás af hálfu fyrrverandi kærasta á heimili sínu, er afar ósátt við íslenskt dómskerfi.

Maðurinn var upphaflega sýknaður í héraði en í Landsrétti var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Einn dómari, Símon Sigvaldason, skilað þar sératkvæði og taldi ástæðu til að maðurinn myndi fá tólf mánaða dóm þar sem níu mánuðir væru skilorðsbundnir. Að mati Símonar var árásin „einkar ófyrirleitin“ og vísaði hann til að mynda í Samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, sem í daglegu tali er nefndur Istanbúlsamningurinn.

Hinir tveir dómararnir sem dæmdu í málinu í Landsrétti voru Jón Höskuldsson og Hildur Briem. Konan segir í samtali við DV að henni sé sérstaklega misboðið að kona hafi viljað að maðurinn fengi svona vægan dóm.

„Ekkert réttlæti fyrir konur“

„Dómskerfið hér á landi er greinilega gallað þegar það kemur svona vægur dómur fyrir þessa árás. Það er ekkert réttlæti fyrir konur. Hvað myndu þessir dómarar gera ef þetta kæmi fyrir börnin þeirra? Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvort þetta hafi verið svona vægur dómur því ég er ekki íslensk en maðurinn er það. Ég er samt manneskja. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum,“ segir hún.

Þrjú ár eru frá árásinni og gengur hún enn til sálfræðings til að vinna úr afleiðingunum. „Þessi árás mun fylgja mér allt mitt líf,“ segir hún. „Það skiptir máli fyrir samfélagið að þeir sem fremja svona glæpi þurfi að borga fyrir þá. Svo komst hann upp með að svara engum spurningum fyrir dómi. Mér finnst það líka alveg ótrúlegt. Ég vil bara fá réttlæti,“ segir hún.

Fullur afbrýðisemi

Konan bjó á Grundarfirði þegar árásin átti sér og hafði átt í sambandi við íslenskan mann sem var þar búsettur. Þau höfðu þekkst í tvö ár, verið saman af og til á þeim tíma, en hún hætti með honum 12. maí 2018 eftir alvarlegt rifrildi. Hann hafi alltaf verið mjög afbrýðisamur og sakað hana um að vera að sofa hjá mönnum sem hún var alls ekki að sofa hjá.

Aðfararnótt þriðjudagsins 15. maí 2018 kom hann drukkinn heim til konunnar og vakti hana með háværi banki. Hún endaði með því að opna dyrnar til að koma í veg fyrir að nágrannarnir vöknuðu við lætin. Maðurinn hafi þá viljað vita hver væri með henni inni í herbergi, en hún var ein í íbúðinni. Þá réðist hann á konuna, ýtti henni þannig að hún féll niður stiga, tók í hár hennar og skellti henni í vegg, skallaði hana í höfuðið og tók hana hálstaki með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka víða á líkamanum, svo sem á hálsi, brjóstkassa, öxl og olnboga.

Lá blóðug á gólfinu

Konan náði síðan að komast undan manninum, upp á þriðju hæð þar sem hún bankaði hjá nágranna og þá fór maðurinn. Hún fór þá aftur inn í íbúðina sína og hringdi í nágrannann á þriðju hæðinni sem kom niður og hringdi í lögregluna.

Lögreglu barst tilkynning um ofbeldið klukkan tvö og læknir á bakvakt var kvaddur til sem mætti klukkan 2:50.  Daginn eftir fór konan á lögreglustöðina og lagði fram kæru á hendur manninum vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis.

Þegar lögregluskýrsla var tekin af manninum þann 11. júní neitaði hann sök en nýtti  rétt sinn til að tjá sig ekki almennt um sakargiftir eða svara einstökum spurningum. Sama var uppi á teningnum fyrir dómi.

Nágranni lýsti því í dómsal að konan hefði vakið hann um miðja nótt þegar hún hringdi í hann grátandi og bað um hjálp. Þegar hann kom í íbúðina hennar lá hún blóðug á gólfinu, skjálfandi og grátandi. Hún hafi lýst því að ákærði maðurinn hafi ráðist á sig.

Þegar lögreglan mætti á vettvang var konan með frystivörur í pokum til að kæla bólgur á nokkrum stöðum.

„Gætir nokkurs ósamræmis“

Héraðsdómur Vesturlands kvað upp dóm í nóvember 2019 þar sem maðurinn var sýknaður.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars:

„Að  virtu  framangreindu  er  það  er  mat  dómsins  að  þótt  framburður  brotaþola  fyrir  dómi  um  framvindu atburða í greint hafi í sjálfu sér verið trúverðugur verður ekki fram hjá því litið að í honum gætir nokkurs ósamræmis  gagnvart  því  sem  hún  hafði  áður  borið  um  hjá  lögreglu,  sem  aftur  rýrir  óhjákvæmilega  trúverðugleika hans og sönnunargildi. Þar sem framburður hennar fær ekki stuðning af öðrum gögnum en vottorði læknis um þá áverka sem greindust á henni þykir, gegn neitun ákærða, ekki komin fram nægileg sönnun,  sem  ekki  verði  vefengd  með skynsamlegum  rökum, um  að  ákærði  hafi  í  greint  sinn  ráðist  að brotaþola á þann hátt og með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Verður ákærði því sýknaður af ákæru.“

Rýrir ekki trúverðugleika konunnar

Landsréttur kvað upp sinn dóm nú í sumar, þann 23. júní, þar sem maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og níu mánaða skilorð.

Í niðurstöðu Landsréttar segir meðal annars:

„Lýsing brotaþola á atburðarásinni er í meginatriðum í innbyrðis samræmi þegar horft er  til  framburðar  hennar  hjá  lögreglu,  fyrir  héraðsdómi  og  fyrir  Landsrétti,  og jafnframt til þess sem haft er eftir henni í frumskýrslu lögreglu og framburði vitna um frásögn   hennar. Verður   ekki   undir   það   mat   héraðsdóms   tekið   að   það   rýri trúverðugleika framburðar hennar að neinu marki þótt hún hafi ekki borið að öllu leyti á sama veg um það í hvaða röð einstakir þættir hinnar fjölþættu árásar áttu sér stað.

Hins  vegar  er  tekið  undir  það mat  héraðsdóms  að  framburður  hennar  sé  í  grunninn trúverðugur. Er ekkert fram komið sem varpað getur rýrð á framburð hennar.“

Afar löng málsmeðferð

Þá vekur Landsréttur sérstaka athygli á drætti við meðferð málsins:

„Það  athugist  að  frá  þingfestingu  málsins  í  héraði  18.  október  2018  og  þar  til  hinn áfrýjaði  dómur  var  kveðinn  upp  9.  nóvember  2019  leið  meira  en  ár.  Ákærði  mætti ekki  er  málið  var  þingfest  en  af  hans  hálfu  sótti  þing  lögmaður  sem  skipaður  var verjandi hans. Fjórum vikum síðar mætti ákærði ásamt verjanda sínum, neitaði sök og hafnaði  bótakröfu.  Var  verjanda  veittur  frestur  til  að  leggja  fram  greinargerð  til  5. febrúar 2019, en engra skýringa er getið í þingbók á svo löngum greinargerðarfresti.

Í þinghaldi þann dag var greinargerð ákærða lögð fram og málinu frestað ótiltekið til  aðalmeðferðar.  Aðalmeðferð  málsins  í  héraði  fór  ekki  fram  fyrr  en  rúmum  átta mánuðum síðar, 11. október 2019, og hafa engar skýringar komið fram á þeim drætti sem er úr hófi fram.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“