Um 180 manns nú á sóttkvíarhóteli

Sóttkvíarhótel við Þórunnartún.
Sóttkvíarhótel við Þórunnartún. mbl.is/Árni Sæberg

Um 180 manns dvelja nú á sóttkvíarhótelinu í Þórunnartúni samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossi Íslands. Í dag komu á hótelið átta manns sem flugu til landsins frá Frankfurt og nú síðdegis komu þangað þrír á leið frá Ósló.

Nú þegar úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur liggur fyrir, er ljóst að ekki er heimilt að skylda fólk til að dvelja á sóttkvíarhótelum. Vegna þessa er verið að færa nákvæmar upplýsingar um fjölda manns í Þórunnartúni milli kerfa, til þess að rakningarteymi ríkislögreglustjóra hafi upplýsingar um þá sem eiga að vera í sóttkví og eru mögulega farnir til síns heima. 

Flugvélar frá London og Amsterdam lentu á Keflavíkurflugvelli nú fyrir skemmstu og ekki fengust upplýsingar um farþega úr þeim vélum sem gista munu á sóttkvíarhóteli, ef einhverjir. 

Þá er von á flugvélum síðar í kvöld frá Tenerife á Spáni og Varsjá í Póllandi. Upplýsingar um farþega þaðan sem munu gista á sóttkvíarhóteli liggja heldur ekki fyrir að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert