Segir tíu þúsund rússneska fanga fallna

Jev­gení Prígosjín, yf­ir­maður rúss­nesku Wagner-málaliðasveit­ar­inn­ar.
Jev­gení Prígosjín, yf­ir­maður rúss­nesku Wagner-málaliðasveit­ar­inn­ar. AFP/Telegram channel of Concord group

Jev­gení Prígosjín, yf­ir­maður rúss­nesku Wagner-málaliðasveit­ar­inn­ar, segir um tíu þúsund fanga, sem fengnir voru til berjast fyrir hönd Rússa í innrásarstríðinu í Úkraínu, vera fallna.

Á síðasta ári fór Prígosjín milli rússneskra fangelsa í þeim tilgangi að fá fanga til að ganga til liðs við herinn gegn sakaruppgjöf við heimkomu, skyldu þeir komast lífs af.

Talið er að fangarnir hafi verið notaðir sem fallbyssufóður en þeir eru stærstur hluti Wagner-liðanna sem farist hafa í stríðinu.

20 prósent fallin

„Ég tók 50 þúsund fanga og 20 prósent þeirra hafa verið drepin,“ sagði Prígosjín í viðtali sem birtist seint í gær.

Sagði hann hlutfall fallinna fanga vera „svipað“ og meðal annarra sem gerðu samning um inngöngu í málaliðasveitina. Hann vildi þó ekki gefa upp nákvæmar tölur.

Um helgina lýstu Wagner-liðar því yfir að borgin Bakmút í Úkraínu væri loks fallin í þeirra hendur eftir hörð átök. Úkraínumenn hafa ekki gengist við þessu og segja bardaga enn í gangi.

Vill að elítan sendi börnin sín

Prígosjín hefur verið gagnrýninn á rússnesk stjórnvöld í tengslum við átökin í Bakmút og hefur hann sagt rússneska varnarmálaráðherrann og yfirmann herráðs Rússlands vanhæfa og sakað þá um að valda óþarfa mannfalli.

Hefur hann jafnframt kallað eftir því að rússneska „elítan“ sendi börnin sín til að berjast í fremstu víglínu í stríðinu.

Þá hefur hann lýst því yfir að Wagner-liðar muni draga sig til baka í byrjun næsta mánaðar og afhenda rússneska hernum Bakmút.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert