Kári: Kominn annar strúktúr á liðið

Kári Kristján Kristjánsson í leik gegn KA.
Kári Kristján Kristjánsson í leik gegn KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði ÍBV, var sáttur með sigur sinna manna í dag þegar liðið mætti KA í Vestmannaeyjum. Kári skoraði fjögur mörk í leiknum en honum lauk 35:31.

„Ég held að góður fyrri hálfleikur hafi lagt grunninn að þessu, 18 mörk þar en fáum samt á okkur þrettán sem er í við það mesta. Forskotið í fyrri hálfleik hjálpaði okkur að komast upp með skítakaflann í byrjun seinni hálfleiks, það var ekki gott.“

Eyjamenn voru undir snemma leiks en sýndu góðan karakter í því að snúa taflinu við snemma.

„Við lendum 5:3 undir og síðan fáum við lykilmörk úr hraðaupphlaupum, þá kom mómentið með okkur. Augnablikið kom þarna og við nýttum það, 18 mörk í fyrri hálfleik er geggjað, það er ekki nokkur skapaður hlutur að því. Við mætum alltof flatir inn í seinni hálfleikinn og fáum rassskell þar,“ sagði Kári en hann var mjög ánægður með Ásgeir Snæ Vignisson, sem komur sterkur inn eftir að Rúnar Kárason fékk rautt spjald.

„Ásgeir kom síðan inn frábær, síðasta korterið og eiginlega klárar þetta fyrir okkur. Björn var líka góður síðustu 10 mínúturnar en heilt yfir var varslan fyrir það ekki geggjuð.“

Markverðir liðanna vörðu lítið í dag en Björn Viðar Björnsson átti ágætan fyrri hálfleik og góðan lokasprett, mikið var skorað í leiknum, 66 mörk.

„Við vinnum með fjórum mörkum og þú sérð það að vandamálið hjá okkur er ekki að skora mörk eins og þessar tölur segja. Við þurfum aðeins að fara að kítta upp í þessa hluti sem við höfum margoft farið yfir varnarlega.“

Eyjamenn fengu mörk úr mörgum áttum í dag og náðu að rúlla hópnum vel.

„Rúnar dettur þarna út hjá okkur með rautt spjald, ég sá ekki atvikið en dómararnir tóku sér tíma í þetta og voru annað hvort mjög óvissir eða ætluðu að vera pottþéttir á því sem þeir voru að gera. Það er væntanlega til myndband af þessu sem verður farið yfir á þessum blessaða agafundi. Ásgeir kemur síðan alveg frábær inn, það var geggjað hjá honum.“

Kári segir liðið vera aðeins breytt og leikskipulagið líka, frá því í fyrra.

„Það er kominn annar strúktúr á þetta, við erum með aðra útilínu með aðrar áherslur. Við erum komnir með mann sem er að skjóta fyrir utan, sem þarf kannski að fara að stíga út í. Við erum komnir með þarna hægra megin það sem við vorum orðnir vanir með Agga (Agnar Smára Jónsson) og Donna (Kristján Örn Kristjánsson) og hann er kominn þarna mjög flottur. Við erum ekki í vandræðum með að skora en varnarlega erum við að leggja meiri áherslu á 6-0 heldur en 5-1 vörnina út frá því sem við erum með í höndunum. Við þurfum að pússa það aðeins betur, greinilega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert