„Er það þess virði?“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Arnþór

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kveðst taka undir það að veik viðspyrna af hálfu sveitarfélaga sé ekki gott innlegg inn í þá efnahagsstefnu sem ríkið sé nú að keyra. „Þess vegna höfum við verið í margvíslegum aðgerðum til að létta undir með sveitarfélögum,“ sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Hann spurði jafnframt hvort það væri þess virði fyrir sveitarfélögin að standa fjárhagslega sjálfstæð eins og þau gera í dag með sjálfstæða tekjustofna.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna út í stuðning ríkissjóðs við sveitarfélög í tengslum við kórónukreppuna. 

„Kemur til greina að beita sér fyrir því að sveitarfélögin geti tekið hagstæðari lán, bara á svipuðum kjörum og stuðningslán til fyrirtækja voru? Og ég spyr á endanum: Er hæstvirtur ráðherra ekki sammála mér um það að veik viðspyrna og geta sveitarfélaganna til að taka þátt í þessu erfiða verkefni muni bitna á okkur öllum, líka verkefni hæstvirts ráðherra,“ spurði Logi m.a.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Jú, ég get tekið undir það að veik viðspyrna af hálfu þess hluta hins opinbera sem sveitarfélögin eru eða standa fyrir væri ekki gott innlegg inn í þá efnahagsstefnu sem við erum núna að keyra. Þess vegna höfum við verið í margvíslegum aðgerðum til að létta undir með sveitarfélögum. Við höfum farið í gegnum þingið með fjöldann allan af aðgerðum og vorum núna síðast, bara svo ég nefni eitt dæmi, að auka endurgreiðslur vegna framkvæmda sem mun gera þeim auðveldara fyrir að standa í þeim á næsta ári,“ sagði Bjarni. 

Logi nefndi í sinni ræðu, að það væri vegna meiri beins stuðnings á Norðurlöndunum til sveitarfélaga sem þau væru ekki í eins vondri aðstöðu núna og sveitarfélögin á Íslandi. „Þau búa bara við ofboðslega erfitt ástand núna,“ sagði Logi.

„Er það þess virði fyrir sveitarfélögin að standa fjárhagslega sjálfstæð?“

Bjarni benti á, að á Norðurlöndunum sé að jafnaði miklu meiri beinn stuðningur. Menn væru meira á fjárlögum.

„Þar er ekki farið með jöfnunarsjóð með þeim hætti sem við gerum hér, að vera með fyrir fram settar formreglur þannig að jöfnunarsjóður sé að ýkja sveiflurnar eins og gerist á Íslandi, heldur horfa menn til hinnar raunverulegu þarfar,“ sagði Bjarni.

„Þess vegna er það sem ég segi að þetta kallar á miklu dýpri spurningar eða dýpri skoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það getur vel verið að við ættum að ráðast í þá spurningu: Er það þess virði fyrir sveitarfélögin að standa fjárhagslega sjálfstæð eins og þau gera í dag með sjálfstæða tekjustofna, þegar betur er skoðað,“ spurði Bjarni að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert