Víkingarnir voru miklu hungraðri

Sigurður Egill Lárusson úr Val og Víkingurinn Karl Friðleifur Gunnarsson …
Sigurður Egill Lárusson úr Val og Víkingurinn Karl Friðleifur Gunnarsson eigast við í kvöld. Eggert Jóhannesson

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var skiljanlega svekktur eftir 1:1-jafntefli síns liðs gegn Víkingi á heimavelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Víkingar jöfnuðu í uppbótartíma. 

„Það voru 20-30 sekúndur eftir þegar markið kom og við náðum ekki að gera nógu vel á móti þessari fyrirgjöf, þannig að boltinn kom aftur fyrir. Það var svekkjandi að halda þessu ekki í 1:0,“ sagði Heimir við mbl.is. 

Fyrri hálfleikurinn var mjög slakur hjá Valsliðinu en Heimir segir þetta ekki versta leik Vals í sumar. 

„Þetta var ekki okkar slakasti leikur en fyrri hálfleikurinn var ekki góður, það var lítið flot á boltanum. Víkingarnir voru miklu hungraðri í fyrri hálfleiknum en í seinni hálfleiknum settum við tempó í þetta og settum boltann út á vængina, þá gekk þetta fínt.

Við komumst sanngjarnt yfir en vonbrigðin voru þau að síðustu 20 mínúturnar áttum við gríðarlega góða möguleika á að ná góðum skyndisóknum en tókum rangar ákvarðanir. Við settum Orra inn á. Þeir hentu Sölva í sóknina og það er alvörumaður. Við þurftum að reyna að verjast löngu boltunum þeirra á Nikolaj,“ sagði Heimir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert