Við erum alltaf að fara á EM

Ingibjörg sækir að Stinu Blackstenius í kvöld.
Ingibjörg sækir að Stinu Blackstenius í kvöld. Ljósmynd/Bildbyran

„Þetta voru ákveðin vonbrigði. Þær voru bara betri en við í dag,“ sagði svekkt Ingibjörg Sigurðardóttir varnarmaður íslenska landsliðsins í fótbolta eftir 0:2-tap fyrir Svíþjóð í toppbaráttu F-riðils í undankeppni EM ytra í kvöld. 

Ísland gerði 1:1-jafntefli við sama lið í síðasta mánuði, en Ingibjörg segir íslenska liðið ekki hafa náð sama takti í kvöld og á Laugardalsvelli í september. „Mér fannst við gefa þeim meiri tíma á boltanum í dag sem gerði það að verkum að þær náðu að gera það sem þær eru bestar í; að halda boltanum og spila honum í gegnum miðjuna. Við vorum svo sjálfar ekki nógu þolinmóðar og vorum með meiri tíma en við héldum oft. Við náðum einhvern veginn aldrei takti í sókninni.“

Þrátt fyrir það var Ingibjörg ánægð með byrjun leiksins, en mark Sofiu Jakobsson á 25. mínútu sló íslenska liðið út af laginu. „Mér fannst við koma ákveðnar til leiks og við erum að spila mjög flottan leik þangað til þær skora. Það var vont að fá þetta mark á okkur en við eigum að bregðast betur við því.“

Stór hluti íslenska liðsins hefur ekki spilað keppnisleik síðan í byrjun mánaðar þar sem hlé var gert á Íslandsmótinu. Ingibjörg er ekki viss hve mikil áhrif það hafði í kvöld. „Það var klárlega ekki sami taktur í sóknarleiknum og í fyrri leiknum, en ég veit ekki hvort það sé út af því að þær hafa ekki verið að spila mikið undanfarið. Við náðum allavega ekki alveg takti.“

Þrátt fyrir áfall í kvöld er Ingibjörg ekki í nokkrum vafa með að Ísland verði á meðal þátttökuþjóða á EM á Englandi 2022, en íslenska liðið á eftir leiki við Slóvakíu og Ungverjaland á útivelli í lok nóvember og byrjun desember. 

„Sænska liðið var alltaf líklegast til að fara beint á EM og við vissum það alveg en við gerðum allt hvað við gátum til að vinna þær. Möguleikarnir okkar eru enn góðir og það eru tveir leikir eftir sem við þurfum að klára. Við erum alltaf að fara á EM, það er alveg á hreinu,“ sagði Ingibjörg ákveðin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert