Crowberry II er eini íslenski vísisjóðurinn sem hefur það sem yfirlýsta stefnu að fjárfesta á Norðurlöndunum og líta á þau sem eina heild. Stofnendur Crowberry Capital eru þær Hekla Arnardóttir, Helga Valfells og Jenný Ruth Hrafnsdóttir.

Áætlað er að um helmingur fjárfestinga sjóðsins fari til Norðurlandanna og hinn helmingurinn til Íslands. Hekla nefnir að búast megi við því að stærsti hlutinn af fjárfestingum utan Íslands fari til Danmerkur.

„Af þessum sjö fyrirtækjum sem Crowberry II hefur fjárfest í er helmingurinn félög sem skráð eru í Danmörku,“ segir Jenný Ruth.

Við sjáum fjölbreytileikann sem tækifæri.

Hekla nefnir að Crowberry hafi einnig margt fram að færa í Danmörku. Danskt nýsköpunarumhverfi sé ekki jafn framarlega þegar kemur að jafnrétti og hin Norðurlöndin. Helga tekur undir með henni og nefnir að Crowberry leggi áherslu á jafnrétti í öllum sínum fjárfestingum. „Við sjáum fjölbreytileikann sem tækifæri,“ segir hún.

Stofnendur Crowberry eru mjög stoltar af því að Crowberry II sé stærsti vísisjóðurinn á öllum Norðurlöndunum sem er stofnaður af konum. Þó jafnrétti sé alltaf haft að leiðarljósi þá lítur Crowberry á eignasafnið sitt sem eina heild.

„Það er ekkert því til fyrirstöðu að við fjárfestum í karlateymum, kvennateymum eða blönduðum teymum. Við fjárfestum í því sem við teljum að hafi möguleika til að vaxa hratt og skila árangri, sem eru yfirleitt verkefni leidd af fjölbreyttum hópum,“ segir Hekla.

Viðtalið við stofnendur Crowberry birtist í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 19. janúar.