Fótbolti

Jón Guðni samdi við Milos um að spila ekki: „Líkaminn orðinn svolítið þreyttur“

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Guðni Fjóluson með boltann en Timo Werner eltir, á Laugardalsvelli 8. september.
Jón Guðni Fjóluson með boltann en Timo Werner eltir, á Laugardalsvelli 8. september. vísir/Hulda Margrét

Það vakti athygli sænska miðilsins Fotbollskanalen að landsliðsmaðurinn Jón Guðni Fjóluson skyldi ekki spila með Hammarby í 3-0 sigrinum gegn IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Jón Guðni segist einfaldlega hafa þurft hvíld.

Jón Guðni hafði leikið nánast hverja einustu mínútu Hammarby á leiktíðinni fram að leiknum við Gautaborg. Hann segist hafa samið við Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfara Víkings og Breiðabliks en nú þjálfara Hammarby, um að fá smáhvíld:

„Þetta var ákvörðun sem við tókum saman. Líkaminn er orðinn svolítið þreyttur,“ sagði hinn 32 ára gamli Jón Guðni við Fotbollskanalen.

Jón Guðni, sem lék í miðri vörn Íslands gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli fyrr í þessum mánuði, er með liði Hammarby í 6. sæti eftir 20 umferðir af 30. Liðið er með 33 stig og skammt er í næstu lið. Jón Guðni ætlar sér að snúa strax aftur í byrjunarliðið en getur hann það, í ljósi þess að liðið hélt hreinu án hans?

„Ég veit það ekki. Það verður erfitt. Við höfum gert vel og haldið markinu hreinu tvo leiki í röð. Ég veit ekki hvenær það gerðist síðast í sögu Hammarby. Það lofar því góðu. Við erum á réttri leið. Vonandi get ég tekið sætið aftur í byrjunarliðinu,“ sagði Jón Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×