Sjöunda mark Viðars og tveir stórir áfangar

Viðar Örn Kjartansson í landsleik Íslands og Belgíu á dögunum.
Viðar Örn Kjartansson í landsleik Íslands og Belgíu á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson náði tveimur stórum áföngum í markaskorun á ferli sínum þegar hann skoraði mark Vålerenga í jafnteflisleik gegn Kristiansund, 1:1, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

Viðar hefur heldur betur verið á skotskónum síðan hann sneri aftur til Vålerenga í haust eftir sex ára fjarveru því þetta var hans sjöunda mark í fyrstu sex leikjunum með Óslóarliðinu.

Markið er hans 150. mark í deildakeppni á ferlinum. Viðar skoraði 38 mörk fyrir Selfoss, tvö fyrir ÍBV og 13 fyrir Fylki áður en hann hóf atvinnuferilinn með Vålerenga árið 2014.

Viðar hefur nú skorað 32 mörk í deildakeppni fyrir Vålerenga, 9 fyrir Jiangsu Sainty í Kína, 14 fyrir Malmö í Svíþjóð, 32 fyrir Maccabi Tel Aviv í Ísrael, 7 fyrir Hammarby í Svíþjóð, eitt fyrir Rubin Kazan í Rússlandi og tvö fyrir Yeni Malatyaspor í Tyrklandi.

Þessi 150 mörk hefur Viðar skorað í 339 leikjum.

Uppfyrir Ásgeir Sigurvinsson

Mörk hans í deildakeppni erlendis eru því samtals 97 talsins og með markinu í gær er Viðar orðinn fimmti markahæsti Íslendingurinn á þeim vettvangi. Hann fór með því uppfyrir Ásgeir Sigurvinsson sem skoraði 96 mörk fyrir Standard Liege, Bayern München og Stuttgart á árunum 1973 til 1990.

Nú eru Heiðar Helguson, Eiður Smári Guðjohnsen, Alfreð Finnbogason og Arnór Guðjohnsen einu Íslendingarnir sem hafa skorað fleiri deildamörk fyrir erlend félög en Viðar.

Viðar og Matthías Vilhjálmsson, sem kom inn á fyrir hann á 81. mínútu leiksins í gærkvöld, eru í harðri baráttu um Evrópusæti. 

Þegar átta umferðum er ólokið eru Alfons Sampsted og félagar í Bodö/Glimt með yfirburðaforystu í deildinni og aðeins spurning hvenær þeir verða meistarar. Bodö/Glimt er með 59 stig, Molde 43, Rosenborg 42 og Vålerenga er með 39 stig í fjórða sætinu. Hólmar Örn Eyjólfsson og samherjar í Rosenborg styrktu stöðuna í þriðja sætinu í gær með 2:1 útisigri gegn Sarpsborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert