Við vitum að staðan er ekki nógu góð

Steven Lennon skoraði sigurmarkið gegn Fylki í kvöld.
Steven Lennon skoraði sigurmarkið gegn Fylki í kvöld. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Skoska framherjanum Steven Lennon var skiljanlega létt eftir að hafa skorað sigurmark FH í 1:0-sigri á Fylki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

FH-ingar voru þar með að vinna sinn fyrsta deildarleik í tvo mánuði en Lennon sjálfur fór illa með nokkur góð færi snemma leiks ásamt Jónatani Inga Jónssyni samherja sínum. „Við hefðum sennilega átt að vera 3-4 mörkum yfir í hálfleik en ég og Jónatan nýttum ekki færin. En hvort sem þú vinnur með einu eða tíu mörkum, þá færðu þessi þrjú stig,“ sagði Lennon í samtali við mbl.is strax að leik loknum.

Lennon hefur verið einn besti markaskorari Íslandsmótsins undanfarin ár og spurði blaðamaður hvort hann hefði ekki verið ósáttur með sjálfan sig framan af leik. „Klárlega, ég á að skora úr svona færum en svona er þetta. Ef þú ert kaldur þá ertu kaldur en ég nældi svo í sigurmarkið og mikilvæg þrjú stig.“

FH vann tvo leiki gegn írska liðinu Sligo Rovers og hefur því nú unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum eftir erfiðar vikur. „Við vitum að staðan er ekki nógu góð í deildinni, en eftir tvo sigra í Evrópukeppninni og langþráðan sigur í deildinni getum við vonandi byggt á því, það eru mikilvægir leikir fram undan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert