Stöndum alveg á brúninni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveirusmit verða eitthvað í kringum þúsund á dag innanlands fram í febrúar og spár gera ráð fyrir því að 90 muni liggja inni á Landspítala vegna veirunnar í lok janúar, þar af 20 á gjörgæslu.

Dekkri spár gerir ráð fyrir 30 sjúklingum á gjörgæsludeild en 10 samkvæmt bjartsýnni spá.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Más Kristjánssonar, yfirlæknis Covid-göngudeildarinnar, á opnum fundi velferðarnefndar Alþingis um sóttvarnaaðgerðir.

Már Kristjánsson.
Már Kristjánsson. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Már sagði ljóst að ef verstu spár gengu eftir yrði eitthvað undan að láta. Hörgull yrði á starfsfólki og spítalinn þyrfti að skrúfa niður kröfur; láta færra starfsfólk glíma við fleiri sjúklinga. 

Hann sagði enn fremur að fræðilega séð væri hægt að hafa 45 í rúmi á gjörgæslu en spítalinn hafi ekki sérhæfðan mannskap til að sinna svo miklum fjölda.

Þórólfur sagði okkur alveg á brúninni að þurfa að herða aðgerðir enn frekar til að koma í veg fyrir alvarlega stöðu. Markmiðið væri nú að ná smitum niður í 500 á dag.

Núverandi fyrirkomulag sóttvarnaaðgerða, með 20 manna almennum samkomutakmörkum, undanþágum fyrir 50 manna samkomur í sitjandi viðburðum og 200 manna samkomum með neikvæðum hraðprófum fyrir Covid-19, verður framlengt næstu þrjár vikurnar.

Byggjum upp gott ónæmi í samfélaginu

Þórólfur fór yfir mikla uppsveiflu í faraldrinum vegna tilkomu Ómíkron-afbrigðisins og sagði útlit fyrir að það afbrigði tæki alveg yfir hægt og bítandi.

Sóttvarnalæknir sagði að með bólusetningu og náttúrulegum sýkingum náum við að byggja upp gott ónæmi í samfélaginu. Erfitt sé að segja til um nákvæmlega hvenær það takist en það gæti tekið einhverjar vikur eða mánuði, ef ekkert nýtt eða óvænt kemur upp.

Þórólfur var meðal annars spurður hvort til greina kæmi að stytta einangrun einkennalausra niður í fimm daga, líkt og er í Bandaríkjunum. Hann sagði það varhugavert og benti á að ýmsir hefðu gagnrýnt Bandaríkjamenn fyrir það.

Með því að stytta einangrun í fimm daga væri hætta á enn frekari útbreiðslu veirunnar og sagði Þórólfur sjö daga einangrun einkennalaura, líkt og er hér á landi, í styttra lagi ef tekið er mið af skala Sóttvarnastofnunar Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert