Réð leigumorðingja til að limlesta fyrrverandi

Lögreglan í Róm að störfum.
Lögreglan í Róm að störfum. AFP

Ítalska lögreglan hefur handtekið karlmann sem réð leigumorðingja á netinu til að limlesta fyrrverandi kærustu sína og afmynda hana með sýru.

Lögreglan í Róm segir áformin hafa verið martraðarkennd og að þau hafi litið út fyrir að vera tekin beint úr spennumynd. Þetta er í fyrsta sinn sem lögreglunni í borginni tekst að koma í veg fyrir glæp sem þennan sem var skipulagður á djúpvefnum svokallaða.

Sá grunaði er sérfræðingur í upplýsingatækni, á fimmtugsaldri og starfar hjá stóru fyrirtæki. Hann hefur verið færður í stofufangelsi.

Ein og hálf milljón í vasann

Maðurinn skipulagði glæpinn vel og vandlega og vildi að kærastan fyrrverandi myndi enda í hjólastól. Hann samþykkti að greiða leigumorðingjanum „umtalsverða upphæð í Bitcoin“, að því er sagði í yfirlýsingu lögreglunnar.

Hann hafði þegar greitt honum umsamda upphæð og ætlaði leigumorðinginn að láta til skarar skríða innan skamms tíma. Samkvæmt ítölsku fréttastofunni AGI átti hann að fá tæpar 10 þúsund evrur í sinn hlut fyrir verknaðinn, eða um eina og hálfa milljón króna.

Lögreglan hóf að rannsaka málið í febrúar eftir að hafa fengið ábendingu í gegnum Interpol af samstarfsmönnum í öðru Evrópuríki sem höfðu séð grunsamlegar samræður á djúpvefnum.

Helmingur drepinn af manni sem þær þekktu

Þó nokkur óhugnanleg mál sem tengjast ofbeldi gegn konum á Ítalíu hafa komið upp á síðustu árum, þar á meðal sýruárásir og morð sem karlmenn hafa framið.

Af þeim 111 konum sem voru myrtar í landinu árið 2019 voru 55 drepnar af eiginmanni eða þáverandi kærasta, á meðan 13 voru drepnar af fyrrverandi mönnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert