„Vona að þau horfi öðruvísi á hlutina en áður“

Elva Hrönn Hjartardóttir mótframbjóðandi Ragnars Þórs Ingólfssonar var létt að …
Elva Hrönn Hjartardóttir mótframbjóðandi Ragnars Þórs Ingólfssonar var létt að lokinni kosningabaráttunni. Hún lætur af störfum hjá VR. Nú segist hún ætla að fagna með sínu fólki og sjá svo hvað verður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér er fyrst og fremst létt yfir því að þessari kosningabaráttu sé lokið. Þetta er búið að eiga algjörlega hug minn allan síðustu vikurnar,“ segir Elva Hrönn Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur á þróunarsviði VR.

Elva Hrönn laut í lægra haldi fyrir sitjandi formanni, Ragnari Þór Ingólfssyni, í formannskjöri VR en úrslit voru kynnt fyrir skömmu.

Hún hlaut 4.732 at­kvæði eða um 39,44 prósent greiddra atkvæða gegn 6.842 at­kvæðum eða 57,03 prósent greiddra at­kvæða Ragnars Þórs. Kosn­ingaþátt­taka var 30,6%. 

Auðvitað vonbrigði

Elva segist auðvitað hafa orðið fyrir vonbrigðum með að sínar hugmyndir hafi ekki hlotið meiri hljómgrunn.

„Ég vona þó að það sem ég hef haft fram að færa síðustu vikur hafi eitthvað náð til forystunnar og að þau kannski horfi svolítið öðruvísi á hlutina núna en áður.“

Elva hafði tilkynnt í kosningabaráttunni að hún myndi láta af störfum hjá VR ef þetta yrði niðurstaðan. Hún segir þau áform ekki hafa breyst.

„Það kom fram í máli mínu já og var niðurstaðan eftir samtal við mína yfirmenn. Sú ákvörðun stendur.“

Þakklæti efst í huga

Elva Hrönn segist ótrúlega þakklát fyrir reynsluna og allan stuðninginn sem hún fékk.

„ Stuðningurinn hefur komið úr ýmsum áttum. Ég er einnig þakklát fyrir móttökurnar en ég hef hitt félagsfólk okkar út um víðan völl og farið í fjölmargar vinnustaðaheimsóknir.

Ég mæli með því að bæði formaður og stjórn geri það reglulega því þar fer samtalið fram. Fólk hefur ýmislegt að segja um okkar vinnu og okkar störf.“

Fagnar með sínu fólki

En hvað tekur nú við hjá Elvu Hrönn?

„Núna ætla ég bara að hvíla mig og fagna með mínu fólki sem er komið inn í stjórn og fagna góðri kosningabaráttu. Svo ætla ég að sjá hvað verður,“ segir Elva Hrönn Hjartardóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert