Máli Sjómannafélags Íslands vísað frá í Félagsdómi

Sundahöfn.
Sundahöfn. Ljósmynd/Eimskip

Félagsdómur vísaði í dag málum Sjónmannafélags Íslands vegna Eimskips og máli ASÍ vegna Eflingar í dag. 

Málið snérist um rétt 58 hafnarverkamanna til að segja sig úr stéttarfélaginu Eflingu og ganga í Sjómannafélag Íslands.

Stefnandi hafði krafist þess að viðurkennt yrði að Sjómannafélag Íslands færi með samningsrétt þessara starfsmanna við gerð kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, vegna starfa þeirra sem hafnarverkamenn hjá Eimskip.

Málinu var vísað frá félagsdómi, m.a. á þeim forsendum að ekki hefði verið hægt að segja sig úr Eflingu meðan félagið stóð í kjaraviðræðum. Málið snúist því ekki um hvort hægt sé að segja sig úr félagi og fara í annað, heldur um formlega dagssetningu á úrsögn og að stéttarfélagið sem starfsmennirnir vilja yfirgefa, standi ekki í kjaraviðræðum.

Kemur ekki á óvart

Halldór Oddsson sviðsstjóri lögfræði- og vinnumarkaðssviðs ASÍ segir þessa niðurstöðu ekki koma á óvart.

„Frávísunin þýðir bara að Félagsdómur telur málið ekki tækt til afgreiðslu hjá sér. Félagsdómur dæmir bara mál sem varða vinnulöggjöfina og mér finnst líklegast að Sjómannafélagið leiti annarra leiða til að fá sínu framgengt,“ og segir það alltaf spurningu hvort hægt sé að leysa mál annars staðar en fyrir dómstólum.

Halldór segir þrennt í stöðunni fyrir stefnanda að gera ef leitað er eftir lagalegri niðurstöðu. Það er hægt að fara með málið fyrir héraðsdóm eða að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. „Ég myndi þó giska á að þeir kæmust að sömu niðurstöðu,“ segir hann. 

„Síðan væri hægt að stefna á ný með öðrum hætti, með nýrri dómkröfu þar sem það er lagað sem dómurinn telur ótækt núna.“

Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, var staddur erlendis og gat ekki tjáð sig um málið eða næstu skref að svo stöddu þegar mbl.is hafði samband.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert