Námslánakerfið útilokandi og uppfylli ekki hlutverk sitt

Ísland er síðast í röð Norðurlanda.
Ísland er síðast í röð Norðurlanda. mbl.is/Valdís Thor

Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS) hefur nú ýtt úr vör nýrri herferð vegna yfirvofandi endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna (MSNM). Samtökin segja íslenska háskólamenntun í hættu vegna vankanta námslánakerfisins og spyrja einfaldlega: „Fyrir hverja er í boði að mennta sig?“

Í tilkynningu frá LÍS kemur fram að þó nokkur munur sé á fjölda fólks á aldrinum 25 til 34 ára sem sæki sér háskólamenntun hérlendis í samanburði við önnur Norðurlönd. Á Íslandi hafi 41,9 prósent aldurshópsins aflað sér háskólamenntunar á meðan hlutfallið sé 55 prósent í Noregi, 49,2 prósent í Svíþjóð og 49 prósent í Danmörku.

Það munar því 7,1 prósent á Íslandi og lægsta hlutfalli meðal annarra Norðurlanda.

„Það er hægt að finna húsnæðislán á betri kjörum en námslán og fjöldi þeirra sem sækja um námslán hefur fækkað um helming á síðustu árum. Vextir námslána hafa aldrei verið hærri og íslendingar eiga evrópumet yfir fjölda háskólanema sem  fullyrða að án launaðrar vinnu gætu þau ekki verið í námi,“ segir í tilkynningu LÍS.

Nauðsynleg vinna skerði framfærslu

Á heimasíðu LÍS má sjá yfirlit yfir kröfur stúdenta. Þar kemur meðal annars fram að framfærslulán MSNM dugi ekki til þegar kemur að almennum framfærslukostnaði hérlendis. Lág framfærsla skerði aðgengi að menntun og valdi því að stúdentar þurfi að vinna til þess að eiga nóg. Við það skerðist þó námslánin sem leiða til þess að stúdentar þurfi að vinna meira.

„Landssamtök Íslenskra stúdenta krefjast þess að  þess að ákvæði þess efnis að upphæðir námslána skuli endurskoðaðar til hækkunar árlega, með tilliti til verðlagsbreytinga, þróunar leiguverðs og gengisbreytinga verði bætt við lög um Menntasjóð námsmanna,“ segir á heimasíðu LÍS.

Fastir vextir hjá LÍN en breytilegir hjá MSNM

Þá hafi vextir á námslánum aldrei verið hærri. Í gamla námslánakerfinu undir nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi lánin verið verðtryggð og borið fasta vexti upp á eitt prósent. Nýlega hafi þeir þó verið lækkaðir niður í 0,4 prósent. Hvað varðar vexti innan MSNM eru þeir breytilegir og geti þeir orðið allt að 4 prósent fyrir verðtryggð og 9 prósent fyrir óverðtryggð lán.

LÍS segja mikla vinnu fram undan til þess að sjóðurinn uppfylli hlutverk sitt.

„Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leiti. Þörf er á mikilli vinnu og talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að þetta hlutverk sé uppfyllt.“

Nánari upplýsingar um kröfur stúdenta má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert