Handbolti

Lærisveinar Alfreðs og Erlings töpuðu stórt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Germany v Portugal - International Handball Friendly DUSSELDORF, GERMANY - NOVEMBER 07: Alfred Gislason, head coach of Germany reacts during the International Handball Friendly between Germany and Portugal at PSD Bank Dome on November 07, 2021 in Dusseldorf, Germany. (Photo by Martin Rose/Getty Images)
Germany v Portugal - International Handball Friendly DUSSELDORF, GERMANY - NOVEMBER 07: Alfred Gislason, head coach of Germany reacts during the International Handball Friendly between Germany and Portugal at PSD Bank Dome on November 07, 2021 in Dusseldorf, Germany. (Photo by Martin Rose/Getty Images)

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu í handbolta máttu sætta sig við sex marka tap gegn Evrópumeisturum Spánar, 29-23. Á sama tíma töpuðu Hollendingar undir stjórn Erlings Richardssonar gegn Frökkum, 34-24.

Þjóðverjar urðu fyrir barðinu á veirunni skæðu og því var Alfreð mættur með nokkuð lemstrað lið. Þrátt fyrir það tókst þýska liðinu að hanga í Evrópumeisturunum mest allan fyrri hálfleikinn, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 14-12, Spánverjum í vil.

Spænska liðið skoraði svo fyrstu fimm mörk síðari hálfleiks og eftir það varð róðurinn þungur fyrir þýska liðið. Spánverjar náðu mest átta marka forskoti og unnu að lokum öruggan sex marka sigur, 29-23.

Þá töpuðu Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska landsliðinu sannfærandi gegn Frökkum. Franska liðið skoraði fyrstu fimm mörk leiksins, en Hollendingar náðu þó að jafna stuttu fyrir hlé. Frakkar tóku forystuna á ný og fóru með þriggja marka forystu í hálfleik, 15-12.

Franska liðið keyrði svo yfir það hollenska í síðari hálfleik og náði mest 12 marka forskoti í stöðunni 32-20. Hollenska liðið klóraði aðeins í bakkann á lokamínútunum, en lokatölur urðu 34-24, Frökkum í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×