Ísland togar í mig, heimahagarnir og fólkið mitt

Sigrún Halla kann því vel að skreppa til Íslands í …
Sigrún Halla kann því vel að skreppa til Íslands í vinnulotur í fjarnámi sínu í hjúkrunarfræði. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef farið í fimmtán skimanir og ansi oft í sóttkví á undanförnu ári þegar ég hef þurft að koma til Íslands í vinnulotur í verklega hluta námsins,“ segir Sigrún Halla Árnadóttir sem býr í Frakklandi en er í fjarnámi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. „Nú er auðveldara að fá launalaust frí og skreppa heim til Íslands í þessar vinnulotur,“ segir Sigrún sem er flugfreyja í fullu starfi hjá Air France, en frá því Covid breiddist um heiminn hefur eðli málsins samkvæmt lítið verið flogið.

„Það kom sér vel fyrir mig, því þá hef ég meiri tíma til að læra, en núna er ég á þriðja ári í hjúkrunarfræðinni. Ég fékk mikinn áhuga á hjúkrun, mannslíkamanum og skyndihjálp þegar ég var á námskeiðum hjá Air France fyrir flugfreyjustarfið. Mágkona mín sem er hjúkrunarfræðingur var líka fyrirmynd mín fyrir þetta námsval,“ segir Sigrún og bætir við að hún hafi misst vinnuleyfið hjá Air France í nokkrar vikur vegna þess að í reglulegri læknisskoðun reyndist hún vera með járnskort.

„Þá gerði ég mér grein fyrir hversu atvinnuöryggið var lítið, maður veit aldrei hvort maður kemst í gegnum næstu læknisskoðun, eða hvernig lífið verður yfirleitt. Þótt flugfreyjustarfið sé skemmtilegt og bjóði upp á ferðalög til framandi svæða í heiminum, þá finn ég að það verður lýjandi eftir því sem ég verð eldri, ég er lengur að jafna mig eftir tímamismun en áður. Þá fór ég að velt fyrir mér öðrum starfsmöguleikum, en ég gæti vel hugsað mér að vinna hlutastarf í fluginu og að hluta til við hjúkrun. Ísland togar líka alltaf í mig, heimahagarnir og fólkið mitt,“ segir Sigrún sem fór til Frakklands fyrir 29 árum sem ung aupair-stúlka, en örlögin höguðu því þannig að hún flutti ekki aftur heim.

„Ástin greip í taumana, ég kynntist frönskum manni og eignaðist tvær stelpur með honum. Þegar því sambandi lauk var ég komin í fast starf hjá Air France og stelpurnar orðnar stálpaðar, svo ég sá enga ástæðu til að flytja heim til Íslands. Stelpurnar mínar eru núna á unglingsaldri og þær þekkja Ísland aðeins af sumarfríum, en þær langar að vera meira á Íslandi og ná betri tökum á íslenskunni. Ég hef alltaf reynt að tala íslensku við þær, en eftir því sem þær verða eldri og við tökumst á við dýpri samræður þá skiptum við oft yfir í frönskuna,“ segir Sigrún sem keypti íslenskt nammi fyrir dætur sínar áður en hún flaug heim til Frakklands í gær eftir vinnulotu.

„Ég gæti ekki verið í þessu námi nema af því að ég hef gott fólk í kringum mig sem styður vel við mig og hvetur mig áfram.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert