Rothissa á vinnubrögðum forystu BÍ

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri BÍ.
Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri BÍ. Mbls.is/Árni Sæberg

Þau vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur og þetta dæmir sig auðvitað sjálft. Ég er eiginlega rothissa á þessu í ljósi starfa minna fyrir félagið gegnum tíðina. Hvers vegna fékk ég ekki tækifæri á þremur mánuðum til að koma mínum sjónarmiðum á framfæri? Blaðamönnum ber að vera sanngjarnir og ég hef áhyggjur af því hvaða augum almenningur lítur þessi vinnubrögð. Þarna átti greinilega að reyna að gera mig tortryggilegan,“ segir Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands (BÍ), í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins, um vinnubrögð núverandi forystu félagsins, varðandi kynningu á skýrslu KPMG um starfsemi félagsins í hans tíð.

Um það sem fram kemur í skýrslunni segir Hjálmar: „Ég er sannarlega ekki gallalaus maður en ég held að ekki sé hægt að véfengja að ég hafi unnið félaginu eins og ég gat best allan þennan tíma og lagt mikið í þá vinnu. Ég vandaði mig alla tíð og er með góða samvisku vegna minna starfa fyrir Blaðamannafélag Íslands, þetta breytir engu þar um. Ég hef satt best að segja engar sérstakar áhyggjur af þessu máli enda eru þau efnisatriði sem koma fram í þessari skýrslu kjánaleg og lýsa mikilli vanþekkingu á rekstri félagsins, eins og ég fór yfir, lið fyrir lið, í grein minni á Vísi í vikunni. Ég er og verð mjög stoltur af störfum mínum fyrir Blaðamannafélagið og óttast ekki dóm sögunnar.“

– Hefur félagið sett niður vegna þessara vinnubragða?

„Ég hefði kosið að haldið hefði verið á þessum málum með öðrum hætti.“

Kastar ekki sprekum á eldinn

Hjálmar segir það því miður hafa loðað við verkalýðshreyfinguna, ekki bara Blaðamannafélagið, að átök milli manna geti orðið heiftúðug. Það sé auðvitað óheppilegt og ekki til neins annars fallið en að veikja samstöðumátt félaganna. „Sjálfur ætla ég ekki að kasta sprekum á þann eld enda er ömurlegt að deila við samherja sína. Ég mun hins vegar alltaf verja hendur mínar ef á mig er ráðist.“

– Er þetta hefndaraðgerð af hálfu formanns Blaðamannafélagsins?

„Mér finnst þessi framganga óskiljanleg.“

Að dómi Hjálmars verða blaðamenn að gera að lágmarki sömu kröfur til sín og þeir gera til annarra. „Okkar hlutverk er að veita aðhald og fyrir vikið getum við ekki gert minni kröfur til okkar sjálfra en þeirra sem við erum að fjalla um hverju sinni. Það er lykilatriði. Heiðarleiki er undirstaða trúverðugleika og hafi blaðamenn ekki trúverðugleika þá hafa þeir ekki neitt. Blaðamannafélagið á auðvitað að vera þar fremst í flokki. Það er ófrávíkjanlegt.“

Ítarlega er rætt við Hjálmar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert