Var heimilt að reka kennara fyrir að slá nemanda

Atvikið átti sér stað í Dalvík.
Atvikið átti sér stað í Dalvík. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Landsréttur sýknaði í gær Dalvíkurbyggð af kröfu kennara um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar í kjölfar þess að kennarinn rak nemanda kinnhest.

Með því snéri rétturinn við dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra sem komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að sveitarfélagið væri bótaskylt vegna uppsagnarinnar. 

Nemandinn sló kennarann fyrst

Kennarinn var að kenna drengjum í 7. og 8. bekk íþróttir utandyra þegar stúlka, sem er samnemandi drengjanna, kom á svæðið. Kennarinn bað hana ítrekað um að yfirgefa svæðið en stúlkan sinnti því engu. Að sögn kennarans sýndi stúlkan honum óvirðingu og dónaskap.

Kennarinn kveðst þá hafa sest niður á hækjur sér og tekið um vinstri úlnlið stúlkunnar, horft í augu hennar og beðið hana um að færa sig þar sem hún væri að trufla kennsluna. Því mun stúlkan hafa svarað með því að segja „ekki fokking snerta mig“ og sveiflað höndum sínum harkalega og slegið kennarann þéttingsfast utanundir. 

Kennaranum brá við þetta og segist ósjálfrátt hafa brugðist við með því að reka nemandanum „léttan kinnhest“ í sjálfsvarnarskyni. 

Líkamlegu inngripi skuli aðeins beitt í ýtrustu neyð

Túlkun Landsréttar er sú að þessi háttsemi kennarans hefði falið í sér gróft brot í starf sem réttlæti fyrirvaralausan brottrekstur. Litið var til reglugerðar um  ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og lagaákvæða um skyldur starfsfólks grunnskóla.

Í reglugerðinni segir að líkamlegu inngripi skuli „aðeins beitt í ýtrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir dugi ekki til að forða nemanda frá því að skaða sig og/eða aðra“. Starfsfólki skóla sé enn fremur óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjón.

Með vísan til alls þessa taldi Landsréttur rök ekki standa til þess að hnekkja mati Dalvíkurbyggðar um að brot kennarans hafi verið svo alvarlegt að það hafi réttlætt fyrirvarlausa brottvísun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert