Höfðu afskipti af ökumanni bíls merktum borginni

Gráa bifreiðin til vinstri á myndinni er merkt Reykjavíkurborg.
Gráa bifreiðin til vinstri á myndinni er merkt Reykjavíkurborg. Ljósmynd/Aðsend

Lögregla hafði afskipti af ökumanni sem grunaður var um akstur undir áhrifum á Kringlumýrabraut við Háaleitisbraut á tólfta tímanum í dag. Á mynd sem barst mbl.is má sjá lögreglumenn í hlífðarfatnaði og segja vitni að viðbúnaður lögreglu hafi virst mikill.

Vitni segja að maður hafi verið leiddur úr grárri bifreið í handjárnum og inn í lögreglubíl. Eins og sjá má er sú bifreið merkt Reykjavíkurborg.

Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstrar og umhirðu borgarlandsins, sagði í samtali við mbl.is að hann þekkti ekki til málsins. Þá sagðist hann heldur ekki vita til þess að bíl á vegum borgarinnar hafi verið stolið nýverið.

Furðuðu sig á miklum viðbúnaði

Vitni sögðu að þau hefðu furðað sig á miklum viðbúnaði lögreglunnar og velt því fyrir sér hvort um stórfellda aðgerð lögreglu væri að ræða. Fyrst hafi ómerkt bifreið lögreglu stöðvað ökumanninn, skömmu seinna hafi svo merktur lögreglubíll mætt á vettvang og loks svarti sendibíllinn sem sést á myndinni að ofan.

Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að í skýrslu lögreglu hafi komið fram að afskipti hafi verið höfð af ökumanni bifreiðar sem grunaður var um akstur undir áhrifum.

Þá sagði hann einnig að ekki sé venjan að lögreglumenn klæði sig í hlífðarfatnað nema ef grunur er á um að hætta vegna kórónuveirunnar sé til staðar. Eins og sjá má á myndinni að ofan eru viðbragðsaðilar klæddir í hlífðarfatnað frá toppi til táar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert