Öruggt hjá Val á Hlíðarenda

Valur og Stjarnan eigast við á Hlíðarenda. Eva Björk Davíðsdóttir …
Valur og Stjarnan eigast við á Hlíðarenda. Eva Björk Davíðsdóttir sækir að marki Valsara í leiknum í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Frábær varnarleikur lagði grunninn að öruggum 29:21 sigri Vals gegn Stjörnunni í Olís-deild kvenna í handknattleik í dag. Með sigrinum fer liðið, að minnsta kosti tímabundið, í toppsæti deildarinnar með 6 stig eftir fjóra leiki.

Valur byrjaði leikinn af krafti og komst í 4:1 snemma leiks. Hægt og bítandi vann Stjarnan sig betur inn í leikinn og minnkaði muninn í 5:4.

Þá höfðu Valsstúlkur ekki verið búnar að skora í rúmar 10 mínútur og sá Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, sig því knúinn til þess að taka leikhlé. Það virkaði sem vítamínsprauta því í kjölfarið tóku Valskonur við sér og bættu vel í sóknarleikinn með vinstri skyttuna Lovísu Thompson í broddi fylkingar. Komust Valskonur mest í fimm marka forystu, 11:6, í fyrri hálfleiknum. Staðan í hálfleik 13:9 og Valur með undirtökin.

Í síðari hálfleik var nokkuð jafnræði með liðunum til að byrja með en þó minnkaði Stjarnan muninn mest niður í þrjú mörk, 18:15. Um miðjan hálfleikinn tóku hins vegar Valskonur öll völd á vellinum og kláruðu leikinn örugglega.

Eftir að Stjörnukonur minnkuðu muninn í 20:16 skoraði Valur næstu þrjú mörk og sáu Stjörnukonur ekki til sólar eftir það. Að lokum kláraði Valur leikinn og vann öruggan átta marka sigur, 29:21.

Markahæst í liði Vals var Lovísa Thompson með 10 mörk og markahæst í liði Stjörnunnar var Eva Björk Davíðsdóttir með 11 mörk.

Valur og Stjarnan eigast við á Hlíðarenda.
Valur og Stjarnan eigast við á Hlíðarenda. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
Valur 29:21 Stjarnan opna loka
60. mín. Valur tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert