Fékk Covid tvisvar, eignaðist barn og er nú snúin aftur

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafia Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, tekur nú þátt á sínu fyrsta atvinnumannamóti eftir 16 mánaða hlé í kjölfar barneignaleyfis. Jabra Ladies Open, sem er hluti af Evrópumótaröð kvenna, fer nú fram í Evian í Frakklandi.

Sonur Ólafíu Þórunnar, Maron Atlas Thomasson, fæddist fyrir tíu mánuðum síðan og er í Frakklandi með móður sinni og föður, Thomas, sem er einnig kylfusveinn hennar. Á heimasíðu Evrópumótaraðar kvenna var af þessu tilefni rætt við Ólafíu Þórunni um endurkomuna.

 „Það er mjög góð tilfinning að vera komin aftur. Ég upplifi mikið af spennu- og gleðitengdum tilfinningum. Þetta er búið að vera skrítið með Covid og að vera ólétt og ég gat því ekki æft mikið, þar sem ég eyddi miklum tíma með Maron.

Ég snerti satt að segja ekki kylfu um langt skeið. Ég fékk Covid í tvígang þannig að ég þurfti að taka því rólega og hef ekki eytt miklum tíma í ræktinni. Ég byrjaði á því að æfa í eina klukkustund á viku og svo þrisvar í viku og nú sex sinnum í viku í lengri tíma í senn. Þetta var smá sjokk í byrjun,“ sagði hún.

Eftir þetta langa hlé sagði Ólafía Þórunn að högglengd hennar hafi styst talsvert.

„Maður veit hvernig á að sveifla kylfunni en maður er ekki með fínhreyfingarnar. Ég byrjaði á að slá tveimur kylfulengdum skemur en ég er vön. Nú er ég að slá einni kylfulengd skemur, þannig að ég þarf að vera skynsöm með að muna það í vikunni.“

Engar væntingar

Hún sagðist ekki vera með neinar sérstakar væntingar fyrir mótið í Frakklandi. „Ég er í raun ekki með neinar væntingar og vonast bara til þess að verða betri og betri. Ég er sem stendur að fara að keppa næst í Belgíu og ég vonast til þess að komast á fleiri mót.

Þetta er svo sannarlega mikil vinna. Maður leggur hart að sér í vinnunni og kemur svo heim og hugsar um hann [Maron] og svo nær maður kannski ekki alveg fullkomnum nætursvefni en þetta er allt þess virði. Mjög mikið af kossum og knúsi,“ sagði Ólafía Þórunn að lokum.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili, tekur einnig þátt á mótinu í Evian. Annar hringur mótsins fer nú fram og er útlit fyrir að bæði Ólafía Þórunn og Guðrún Brá komist ekki í gegnum niðurskurðinn eins og sakir standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert