„Svo var bara einn eftir í morgun“

Frá undirbúningi fyrir kosningarnar í Laugardalshöll í gær.
Frá undirbúningi fyrir kosningarnar í Laugardalshöll í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að kjósa í breskum borgarstjórnarkosningum og íslenskum er ekki alveg sami leikurinn. Hér á landi er frambjóðendafjöldinn meiri og erfiðara að greina mun á milli flokka. Þetta segja bresku mæðginin Kay og David Cook sem kusu í í Hagaskóla í morgun, David í fyrsta sinn.

„Miðað við það sem við erum vön þykir okkur óvenjulegt að geta valið úr svo stórum hópi frambjóðenda og flokka. Það er fínt að eiga þann möguleika,“ segir Kay og bætir því við að henni finnist mörg framboðanna hafa svipaða sýn á borgarmálin.

„Það getur gert þetta erfiðara. Í breska kerfinu eru flokkarnir með ólík gildi.“

Var erfitt að velja?

„Já, við ákváðum okkur bara í morgun,“ sagði David.

Þau mæðginin byrjuðu á því að finna þá þrjá flokka sem þau gátu helst ímyndað sér að kjósa.  

„Svo var bara einn eftir í morgun,“ segir Kay.  

Dreymdi um að ferðast til Íslands frá 12 ára aldri

Mæðginin hafa búið hér á landi í 10 ár en erlendir ríkisborgarar mega kjósa í sveitarstjórnarkosningum eftir þriggja ára búsetu á íslandi. David starfar við rannsóknir hjá Háskóla Íslands en Kay ákvað að flytja til Íslands eftir að hafa „orðið ástfangin“ af landinu þegar hún kom hingað sem túristi árið 2010.

„Náttúran hérna er svo hrá og einstök, það er eitthvað heillandi við það,“ segir Kay sem hafði dreymt um að ferðast til Íslands síðan hún var 12 ára gömul. Hún lét ekki af því verða fyrr en áratugum síðar.

Missa af atkvæðum ef þeir hugsa ekki til erlendra ríkisborgara

David kaus í fyrsta sinn í dag en Kay hefur áður tekið þátt í sveitarstjórnarkosningum. Þau segja að ferlið hafi verið einfalt og að vel hafi verið tekið á móti þeim.

Spurð um það hvort þeim finnist stjórnmálaflokkar huga nægilega vel að erlendum ríkisborgurum við stefnumótun segir David:

„Já, sífellt meira. Það er alltaf að færast í aukana að þeir sjái fólki fyrir upplýsingum á ensku og pólsku.“

David bendir á að um 15% þeirra sem hér á landi búa séu erlendir ríkisborgarar.  

„Ég held að ef stjórnmálaflokkar einbeita sér ekki að þessum 15% þjóðarinnar séu þeir að missa af mörgum atkvæðum,“ segir hann.

„Flestum finnst gott að vita til þess að hugsað sé til þeirra, að þeir séu mikilvægir,“ segir Kay.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert