Pelé fékk góðar kveðjur frá sínu fólki á HM

Brasilísku landsliðsmennirnir með Pelé-borðann í Katar í kvöld.
Brasilísku landsliðsmennirnir með Pelé-borðann í Katar í kvöld. AFP/Odd Andersen

Brasilíska karlalandsliðið í knattspyrnu sendi Pelé góðar kveðjur eftir sigurinn gegn Suður-Kóreu, 4:1, í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í kvöld.

Pelé, sem er 82 ára og varð þrisvar heimsmeistari með Brasilíumönnum, fylgdist með leiknum á sjúkrahúsi í Sao Paulo, en þar hefur hann legið síðan á þriðjudag vegna sýkingar í öndunarfærum, auk þess sem hann er í lyfjameðferð vegna krabbameins.

Leikmenn liðsins stilltu sér upp á vellinum með stóran borða með nafni Pelé og í áhorfendastúkunum mátti sjá brasilíska áhorfendur með stóra borða þar sem fótboltagoðinu var óskað góðs bata.

Pelé er enn markahæsti leikmaðurinn í sögu brasilíska landsliðsins með 77 mörk en eftir að hafa skorað gegn Suður-Kóreu í kvöld er Neymar aðeins einu marki á eftir honum með 76 mörk.

Stuðningsfólk brasilíska liðsins sendi Pelé góðar kveðjur.
Stuðningsfólk brasilíska liðsins sendi Pelé góðar kveðjur. AFP/Manan Vatsyayana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert