Ónafngreindur aðili bauð 19 milljónir dala eða sem nemur 2,5 milljörðum króna fyrir að snæða hádegismat í einrúmi með goðsagnakennda fjárfestinum Warren Buffett á steikhúsinu Smith & Wollensky í New York.

Upplifunin var hluti af uppboði eBay og góðgerðasamtakanna Glide Foundation sem vinnur að því að draga úr fátækt, hungursneyð og heimilisleysi. Þetta verður í síðasta skipti sem hinn 91 árs gamli auðkýfingur býður fram krafta sína fyrir hið árlega uppboð sem þáverandi eiginkona hans, Susan Buffett heitin, setti á fót árið 2000.

Sjá einnig: Buffett hefur gefið 6.336 milljarða í góðgerðarmál

Vinningstilboðið var fjórfalt hærra en fékkst árið 2019, síðasta skiptið sem uppboðið var haldið. Þá greiddi rafmyntafrumkvöðullinn Justin Sun 4,6 milljónir dala, eða nærri 600 milljónir króna, fyrir hádegismat með Buffett.