Strax verði hafin vinna við loftun vegna mengunar

Bensíntankur N1 stóð við hlið verslunar KS á Hofsói.
Bensíntankur N1 stóð við hlið verslunar KS á Hofsói. mbl.is/Björn Jóhann

N1 skal innan tveggja vikna hefja gröft á skurðum og niðursetningu loftunarröra við hús í nágrenni olíutanks fyrirtækisins á Hofsósi. Kemur það fram í fyrirmælum sem Umhverfisstofnun hefur gefið út um úrbætur vegna umhverfisslyss.

Íbúar urðu á árinu 2019 varir við að bensínlykt barst upp úr niðurföllum í nágrenni við bensínstöð sem N1 rekur við Suðurbraut á Hofsósi, einnig innadyra í að minnsta kosti tveimur húsum. Eftir ítrekaðar ábendingar kom í ljós að neðanjarðargeymir fyrir bensín var lekur. Var hann tæmdur og tekinn úr notkun. N1 hóf hreinsunaraðferðir um mitt síðasta ár. Meðal annars voru eldsneytisgeymar fyrirtækisins grafnir upp og fjarlægðir. Aðgerðir sem gripið var til í kjölfarið dugðu ekki til að losna við áhrif bensínlekans.

Gerð var jarðvegsrannsókn sl. sumar og Verkís falið að gera áætlun um úrbætur. Í fyrirmælum Umhverfisstofnunar segir að úrbætur skuli framkvæma í samræmi við úrbótaáætlunina. Markmið aðgerðanna er að þau hús sem orðið hafa fyrir áhrifum mengunarinnar verði sem fyrst íbúðarhæf og að styrkur mengunar í þeim valdi ekki heilsuspillandi áhrifum.

Felast aðgerðirnar í að grafnir verða skurðir og loftunarrörum komið fyrir í þeim, samhliða áframhaldandi rannsóknum á styrk rokgjarnra efna í jarðvegi. Að auki fer Umhverfisstofnun fram á að við útblástur loftunarröra skuli koma fyrir kolasíu í þeim tilgangi að minnka þá lykt sem berst út í andrúmsloftið.

Gryfjurnar eiga að vera fyrir framan og aftan húsin á Suðurbraut 6, 8 og 10 og einnig á milli þeirra ef það er framkvæmanlegt. Jarðvegur þar sem mengun mælist yfir viðmiðunarmörkum við gröft skal fjarlægður.

Eftir að blásarar hafa verið settir í gang í loftunarholum ber fyrirtækinu að senda inn tillögu að vöktunaráætlun. Skal vöktun innanhúss standa í að minnsta kosti ár eftir að hreinsun lýkur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert