Sænska þingið kýs aftur um Andersson

Magdalena Andersson á blaðamannafundi í gær.
Magdalena Andersson á blaðamannafundi í gær. AFP

Sænskir þingmenn munu greiða um það atkvæði á mánudaginn hvort Magdalena Andersson, leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins, verður næsti forsætisráðherra landsins. Þetta verður önnur atkvæðagreiðsla þess efnis á innan við viku.

Andersson var kjörin forsætisráðherra á þinginu í gær, fyrst kvenna í landinu, en sagði af sér embætti aðeins sjö klukkustundum síðar eftir að Græningjaflokkurinn sleit sig úr ríkisstjórnarsamstarfinu.

Andreas Norlen, forseti sænska þingsins.
Andreas Norlen, forseti sænska þingsins. AFP

Andreas Norlen, forseti sænska þingsins, segist „afar leiður“ yfir atburðarás gærdagsins, sem fjölmiðlar hafa lýst sem „martraðarkenndum degi“.

„Hegðun sem þessi eykur hættuna á því að traust fólks dvíni í garð þingsins og stjórnmálanna,“ sagði Norlen.

Reiknað er með því að Andersson, sem er 54 ára, myndi minnihlutastjórn sem eingöngu verður skipuð Sósíaldemókrötum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert