Sterkur sigur liðsheildarinnar

Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknismanna, fagnar hér marki sínu í …
Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknismanna, fagnar hér marki sínu í kvöld, því tíunda í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknismanna, var ánægður með vinnuframlag liðsfélaga sinna í kvöld, en Leiknir vann þá 2:0 heimasigur á Stjörnunni í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Sævar Atli skoraði fyrra mark liðs síns strax á 6. mínútu, og er hann nú næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar, með tíu mörk skoruð.

„Mér leið mjög vel allan leikinn varnarlega séð,“ segir Sævar Atli þegar hann var spurður um hvað hefði skilið á milli liðanna í kvöld. „Mér fannst varnarskipulagið og ákefðin í okkur vera mjög góð,“ segir Sævar og bætir við að Stjörnumenn hafi varla fengið færi í leiknum. „Þetta var mjög flottur liðssigur.“

Hann segir að Stjarnan hafi sótt mjög síðustu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik, en að öðru leyti hafi leikurinn verið í höndum Leiknismanna. „Við áttum að skora eitt til tvö mörk í viðbót,“ segir Sævar Atli, en heimamenn voru heldur nær því að bæta við marki en Stjörnumenn að minnka muninn.

Sævar Atli segir að talað hafi verið um það fyrir leikinn að Stjarnan hefði verið að spila í Evrópukeppninni á fimmtudaginn, og því hafi verið ákveðið að keyra upp hraðann í leiknum. „Við vildum ýta upp tempóinu og vera orkumeiri en þeir, því það segir sig sjálft að þeir ættu að vera þreyttari en við,“ segir Sævar Atli, sem fannst það helst miður að ekki skyldi hafa tekist að skora þriðja markið og klára þannig leikinn.

Næsti leikur Leiknismanna er heimaleikur á móti KA á sunnudaginn. Sævar Atli er vongóður um árangur þar. „Við erum sterkir á heimavelli, við höfum verið að fá okkar stig þar og við hlökkum bara til að taka á móti KA-mönnum. Þeir eru með hörkulið og spila góðan fótbolta, þannig að það verður verðugt verkefni. Við fögnum því í kvöld og förum svo strax að undirbúa þann leik á morgun,“ segir Sævar Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert