Höttur heldur sér uppi í fyrsta sinn og ÍR fallið

Danero Thomas og Nemanja Knezevic eigast við í kvöld.
Danero Thomas og Nemanja Knezevic eigast við í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höttur frá Egilsstöðum gerði dýrmæta ferð í Kópavoginn og hafði betur gegn heimamönnum í Breiðabliki, 98:85, í næstsíðustu umferð Subway-deildar karla í körfuknattleik í kvöld.

Með sigrinum tryggði Höttur sæti sitt í efstu deild og sá um leið til þess að ÍR er fallið niður í næstefstu deild.

Er þetta í fyrsta sinn sem Hetti tekst að halda sæti sínu í efstu deild þar sem liðið hafði fallið úr henni í öll fyrri skiptin sem það hafði leikið í efstu deild.

Í kvöld voru Blikar með undirtökin í fyrri hálfleik og leiddu með tíu stigum, 46:36, að honum loknum.

Allt annað var hins vegar að sjá til Hattar í síðari hálfleik. Í þriðja leikhluta tóku gestirnir frá Egilsstöðum leikinn yfir, sneru taflinu við og náðu mest fimm stiga forystu, 60:55.

Blikar sóttu þá í sig veðrið en Höttur leiddi með einu stigi, 66:65, að þriðja leikhluta loknum.

Fjórði leikhluti hófst eins og sá þriðji þar sem Höttur keyrði yfir heimamenn og náði mest 15 stiga forystu, 89:74.

Blikar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn niður í sjö stig, 92:85, þegar skammt var eftir. Góður endasprettur Hattarmanna sá hins vegar til þess að liðið vann öruggan 13 stiga sigur.

Með sigrinum fór Höttur upp fyrir Breiðablik og í áttunda sætið, það síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

Höttur, Stjarnan og Breiðablik eru öll með 16 stig í áttunda til tíunda sæti og verður því hart barist um síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Timothy Guers átti stórleik fyrir Hött er hann skoraði 29 stig, tók átta fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal tveimur boltum.

Everage Richardson var stigahæstur hjá Breiðabliki með 23 stig. Danero Thomas bætti við 18 stigum.

Breiðablik - Höttur 85:98

Smárinn, Subway deild karla, 23. mars 2023.

Gangur leiksins:: 4:0, 10:7, 12:13, 22:15, 30:20, 33:27, 39:31, 46:36, 51:40, 55:51, 58:60, 65:66, 69:72, 77:89, 79:92, 85:98.

Breiðablik: Everage Lee Richardson 23, Danero Thomas 18/4 fráköst, Julio Calver De Assis Afonso 15/7 fráköst, Sigurður Pétursson 10/8 fráköst, Clayton Riggs Ladine 8, Jeremy Herbert Smith 6, Árni Elmar Hrafnsson 5.

Fráköst: 21 í vörn, 6 í sókn.

Höttur: Timothy Guers 29/8 fráköst/6 stoðsendingar, Bryan Anton Alberts 16, Nemanja Knezevic 14/10 fráköst, Matej Karlovic 11, David Guardia Ramos 8/7 fráköst, Adam Eiður Ásgeirsson 8/5 fráköst, Obadiah Nelson Trotter 7, Gísli Þórarinn Hallsson 3, Juan Luis Navarro 2.

Fráköst: 32 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson.

Áhorfendur: 128

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert