„Miði er möguleiki“

Ron DeSantis, Donald Trump og Nikki Haley munu berjast um …
Ron DeSantis, Donald Trump og Nikki Haley munu berjast um útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Samsett mynd

„Miði er möguleiki. Það getur alltaf eitthvað gerst,“ segir Friðjón Friðjónsson almannatengill í samtali við mbl.is en kosningabaráttan í forvali repúblikana um tilnefningu til forseta Bandaríkjanna er komin á fullt. Hann kveður að Trump sé með forskotið að svo stöddu en að mikið vatn eigi enn eftir að renna til sjávar.

Allt getur gerst

Á einhver frambjóðandi séns á að sigra Trump, eins og t.d. DeSantis?

„Líklega ekki. En það verður mjög forvitnilegt að sjá hvort að Trump verði sakfelldur fyrir einhver af þessum málum sem hann er að glíma við. Sérstaklega hjá stuðningsmönnum hans sem eru ekki í hans harðasta kjarna,“ segir Friðjón og bætir við að harðasti kjarninn hans Trumps sé fólk með litla menntun sem býr á landsbyggðinni.

Stefnir í leðjuslag hjá Repúblikönum.
Stefnir í leðjuslag hjá Repúblikönum. AFP/Jon Cherry

Gæti verið að þeir frambjóðendur sem virðast ekki eiga möguleika á sigri að svo stöddu séu að veðja á að lagaleg vandamál Trumps verði honum að falli?

„Já en það er líka annað í þessu. Sagan segir okkur það að sá sem fær útnefninguna er oft að reyna við það í annað skipti,“ segir Friðjón og nefnir sem dæmi Bush eldri, Ronald Reagan, Bob Dole, John McCain og Mitt Romney.

„Það er sagan í flokknum að menn ná gjarnan útnefningunni í tilraun tvö. Frambjóðendurnir eru að byggja upp net stuðningsmanna um gervöll Bandaríkin fyrir framboð mögulega seinna í framtíðinni,“ heldur hann áfram og bætir við: „Miði er möguleiki. Það getur alltaf eitthvað gerst. Trump gæti verið sakfelldur.“

Nikki Haley áhugaverð

Hvaða frambjóðandi repúblikana er líklegastur til að sigra Joe Biden?

„Biden vinnur Trump mögulega, en lendir í vandræðum með flesta aðra frambjóðendur. Nikki Haley er mjög áhugaverð en hún var vinsæll ríkisstjóri í Suður-Karólínu og er með öðruvísi bakgrunn en aðrir frambjóðendur,“ svarar Friðjón.

Hann segir að Tim Scott myndi eiga erfitt uppdráttar sökum þess hversu lítið þekktur hann er og að Asa Hutchinson gæti aldrei sigrað. Hins vegar verði áhugavert að sjá hvað Glen Youngkin, ríkisstjóri Virginíu, gerir en hann er aðeins að setja tærnar í djúpu laugina þessar vikurnar.

Donald Trump kampakátur.
Donald Trump kampakátur. AFP

DeSantis virðist vera að fara hægra megin við Trump í mörgum málum, sérstaklega í þessum svokölluðu menningarstríðsmálum. Er það góð taktík?

„Það er áhugavert, sérstaklega í ljósi þess eini hópurinn þar sem hann nýtur meiri stuðnings en Trump er meðal háskólamenntaðra repúblikana sem eru gegn réttrúnaðarmenningu. Uppteknir af umræðum um kynin og réttindi samkynhneigðra og svo framvegis.“ Hann segir að með því að fara lengra til hægri og í átt að íhaldi sé DeSantis að reyna sækja sér fylgi meðal eldri kjósenda.

Friðjón telur að Biden væri í vandræðum ef hann myndi …
Friðjón telur að Biden væri í vandræðum ef hann myndi mæta Nikki Haley AFP/Spencer Platt

Lítið að marka kannanir

Friðjón segir flesta frambjóðendur vera gera sig klára sem mögulegt varaforsetaefni Trumps „Þau eru öll að tygja sig upp í að vera varaforsetaefni. Öll nema Mike Pence. Þau vona líka helst að Trump tapi forsetakosningunum svo að þau séu hinn augljósi arftaki fyrir næstu kosningar.“

Hann segir það sé farið að skipta meira máli en áður að vera landsþekktur. „Segjum að Trump lendi í fangelsi þá gæti einhver landsþekktur einstaklingur eins og Tucker Carlson hoppað inn. Hann myndi strax hafa forskot þar sem hann er svo gífurlega þekktur. Hann myndi nánast vera eins og nýr Trump innan flokksins,“ segir Friðjón og bætir við að bandarísk stjórnmál séu farin að snúast mikið um skemmtanagildi sem myndi hygla mönnum eins og Tucker og öðru frægu fólki.

Er eitthvað að marka kannanir á þessum tímapunkti?

„Nei í raun ekki. Yfirburðir Trumps vissulega en annarra ekki,“ svarar Friðjón og nefnir svo dæmi um ótal einstaklinga sem hafa rokið upp í könnunum en svo riðað til falls. „Fólk sem er viðvarandi stærð eins og Trump eru með kjarnafylgi. En fólk eins og Haley og Tim Scott geta átt sínar 15 sekúndur af frægð. Það er ekkert að marka kannanir fyrr en kosið verður í fyrstu fylkjunum,“ segir Friðjón í samtali við mbl.is.

Helsti keppinautur Trumps er hinn geysivinsæli DeSantis
Helsti keppinautur Trumps er hinn geysivinsæli DeSantis AFP/Giorgio Viera

Helstu frambjóðendur

  • Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna
  • Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída
  • Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu
  • Tim Scott, öldungadeildarþingmaður frá Suður-Karólínu
  • Vivek Ramaswamy, frumkvöðull í líftækni og viðskiptum
  • Asa Hutchinson, fyrrverandi ríkisstjóri Arkansas

Aðrir mögulegir frambjóðendur:

  • Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna
  • Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey
  • Glen Youngkin, ríkisstjóri Virginíu
  • Chris Sununu, ríkisstjóri New Hampshire
  • Doug Burgum, ríkisstjóri Norður-Dakóta
Friðjón R. Friðjónsson almannatengill með góða innsýn í málin vestanhafs.
Friðjón R. Friðjónsson almannatengill með góða innsýn í málin vestanhafs.

Staðan í könnunum samkvæmt RealClearPolitics er þannig að Donald Trump mælist með yfir 50% fylgi og Ron DeSantis mælist með yfir 20%. Þeir bera höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur en Nikki Haley og Mike Pence mælast með tæplega 5%. Þar á eftir kemur hinn 37 ára Vivek með tæplega 3%.

Trump á móti DeSantis

Þetta er leðjuslagurinn sem margir hafa búist við í marga mánuði og er nú formlega byrjaður, og það með látum. Þótt Trump mælist stór í könnunum var DeSantis bara að tilkynna framboð á miðvikudaginn.

DeSantis er með mikið vopnabúr, bæði í peningum og í formi einstaklega klóks kosningateymis og pólitískra aðgerðanefnda. DeSantis var með 86 milljónir dollara, 12 milljarður króna, í síðasta uppgjöri í apríl. Það er langstærsti kosningasjóðurinn hjá nokkrum frambjóðanda og hann safnaði 8 milljónum dollara, rúmlega einum milljarði króna, á fyrsta sólarhring frá tilkynningu um framboð.

Mike Pence gæti boðið sig fram gegn sínum gamla yfirmanni
Mike Pence gæti boðið sig fram gegn sínum gamla yfirmanni AFP/Scott Olson


Spennið beltin!
Spennið beltin! AFP/Elijah Nouvelage and Joseph Prezioso
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert