Sátt með sigurinn en eigum að gera betur

Hafdís Renötudóttir átti flottan leik í kvöld.
Hafdís Renötudóttir átti flottan leik í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Landsliðsmarkvörðurinn Hafdís Renötudóttir var ekki sérlega ánægð með spilamennsku Fram í kvöld, þrátt fyrir 28:27-sigur á Val í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta.

„Mér fannst við eiga að gera miklu betur. Við vorum aðeins sjálfsöruggari á síðasta korterinu en fyrsta korterinu,“ sagði hún við mbl.is eftir leik og hélt áfram.

„Ég er ánægð með sigurinn og að við séum komnar yfir en ég sé fullt sem við getum bætt. Við þurfum að mæta miklu sterkari í næsta leik. Annars er ég sátt með sigurinn,“ sagði hún.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og réðust úrslitin í blálokin. Hafdís á von á að einvígið verði áfram jafnt og hrósaði hún Söru Sif Helgadóttur, sem átti stórleik í markinu hinum megin.  

„Ég hef trú á því að þetta verði jafnt, en við eigum að gera betur. Við gerum betur næsta mánudag. Sara Sif var að gera okkur erfitt fyrir og hún hélt þeim inni í leiknum stærstan hluta leiksins,“ sagði Hafdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert