Skreið á maganum til að bjarga Gosa

Davíð Smári, Gosi og hundurinn Kári í bústaðnum síðasta sumar.
Davíð Smári, Gosi og hundurinn Kári í bústaðnum síðasta sumar.

Fyrir kattaeigendur sem velta fyrir sér hæfni heimiliskatta til að bjarga sér ef þeir týnast, er nýleg saga af Gosa frá Njarðvík ágætt innlegg í þá umræðu. Gosi týndist í þrjár vikur í nístingsfrosti í Grímsnesinu en hafði betur í baráttunni við dauðann þar til hann kom í leitirnar. 

Kötturinn Gosi fæddist 11.11.11 og er því á tólfta aldursári. Hefur hann fylgt eigendunum Valgeiri og Söru Bergmann nánast frá því að þau hófu sambúð. Gosi er forvitinn að eðlisfari og eigendurnir hafa gripið til þess ráðs að setja GPS-ól á köttinn og geta þau því í krafti tækninnar fylgst með þegar kötturinn er á flækingi.

Gosi hefur átt það til að kynna sér Reykjanesbæ í skjóli nætur og er ekki óvanur langri heilsubótargöngu sem eigendurnir geta fylgst með, með hjálp GPS. 

Rafhlaðan tæmdist

Þegar Gosi týndist á dögunum var hann hins vegar á slóðum sem hann þekkir ekki eins vel en fjölskyldan var í sumarbústað í Grímsnesinu. Gosi hætti sér lengra frá bústaðnum en hann er vanur og virðist hafa tapað áttum. Ekki var hægt að nýta GPS-tæknina við leitina því rafhlaðan tæmdist í búnaðinum. 

Valgeir tjáði mbl.is að Gosi hefði týnst þegar vetrarfrí var í skólum. Týndist kötturinn á laugardegi og leituðu þau alla helgina. Eftir það þurfti hann að fara til vinnu og sonur þeirra í skólann. Sara varð eftir í bústaðnum og ákveðið var að manna bústaðinn áfram ef kötturinn skyldi skila sér. Var bústaðurinn sem er í eigu foreldra Söru því mannaður í þrjár vikur til öryggis.

Á sama tíma stóð yfir mikil leit að kettinum og Valgeir er sumarhúsaeigendum á svæðinu afar þakklátur fyrir mikla hjálp. 

„Samfélagið þarna í Öndverðanesinu er ótrúlega fallegt. Við höfðum auglýst eftir kettinum á svæðinu og ógrynni af fólki deildi auglýsingunni og sýndi stuðning. Fólk í Öndverðanesinu sem ég hef aldrei hitt, gekk um allt til að leita að kettinum,“ segir Valgeir í samtali við mbl.is og nefnir einnig að þau hafi fengið mikla hjálp frá fólki hjá dýraverndunarfélaginu Villiköttum. 

„Guðný Tómasdóttir, svínabóndi og sjálfboðaliði hjá Villiköttum, hjálpaði okkur gríðarlega mikið. Hún var vakin og sofin yfir þessu. Setti upp fellibúr, myndavélar með hreyfiskynjara og hvaðeina.“

Taldi köttinn af

Sumarhúsaeigendur könnuðu hvort þau kæmu auga á köttinn í eftirlitsmyndavélum. Þegar á leið var Valgeir hins vegar farinn að efast um að kötturinn væri á lífi í þeim fimbulkulda sem gekk yfir landið. 

„Ef til vill var það Guðnýju að þakka að við gáfumst ekki upp því ég var nú farinn að telja köttinn af. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði í fjölmiðlum um daginn að kuldakastið væri afbrigðilegt og það versta í sjötuíu og tvö ár. Inn til landsins er mun meira frost en á höfuðborgarsvæðinu og á næturna var frostið iðulega 10 til 15 gráður. Kötturinn var matarlaus og skjóllaus í þrjár vikur í þessu frosti,“ segir Valgeir en þá dró til tíðinda. 

„Sumarhúsaeigendur sem hjálpuðu okkur, Aðalsteinn og Birna, tilkynntu mér í síðustu viku að þau hefðu séð köttinn í öryggismyndavél. Ég gerði mér ferð til þeirra síðdegis á laugardaginn en okkur grunaði að kötturinn gæti hafa leitað skjóls undir bústaðnum hjá þeim. Á myndum í öryggismyndavélinni virtist kötturinn að niðurlotum kominn og stóð vart undir sjálfum sér þegar hann reyndi að labba upp brekku. Og síðan þá höfðu liðið tveir eða þrír dagar.

Með það fór ég frá þeim og gafst þá upp enda var ég viss um að kötturinn myndi draga sig í hlé í þessu ástandi með þeim afleiðingum að við myndum aldrei finna hann. Ég var að velta þessu fyrir mér á leiðinni heim að bústaðnum um kvöldmatarleytið á laugardaginn en þá birtist kötturinn allt í einu við veginn þegar ég var á akstri.“

Gaf sig ekki svo auðveldlega

Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið og við tók mikið þolinmæðisverk hjá Valgeiri því Gosi var orðinn tortrygginn mjög eftir hrakfarirnar í náttúrunni. 

„Mér er sagt af fólki hjá Villiköttum að heimiliskettir koma jafnvel ekki til eigenda sinna ef þeir eru í þessu ástandi. Þá eru þeir komnir í einhvern ham þar sem þeir reyna bara að lifa af. Ég reyndi að lokka hann til mín með alls kyns góðgæti sem Gosa þykir best en hann tók ekki í mál að koma til mín. Þarna sat ég við malarveginn í korter að spjalla við köttinn, henti til hans skinkubitum og reyndi að vinna traust hans.

Hann lét hins vegar ekki freistast og þá skreið ég eins hægt og ég gat á maganum til hans. Ég skreið í tíu mínútur til hans og tókst þá að grípa hann. Ég fann þá strax að hann var bara gangandi beinagrind enda var hann kominn niður í þrjú kíló en hafði verið rúm fimm í síðustu læknisskoðun.“

Valgeir kampakátur eftir að hafa náð Gosa inn í bíl …
Valgeir kampakátur eftir að hafa náð Gosa inn í bíl til sín eftir mikla leit vikum saman.

Hlýja frá fólkinu í hverfinu

Sonur Valgeirs og Söru, Davíð Smári, er níu ára gamall og afskaplega hændur að kettinum. Hændari að kettinum en hundunum tveimur sem einnig eru á heimilinu. Kennarar Davíðs höfðu til að mynda haft orð ég því við foreldrana að drengurinn hefði verið daufur í dálkinn dagana á undan. Þar af leiðandi fylgdi því mikill léttir fyrir Valgeir að geta komið með köttinn heim á lífi. 

„Það var góð stund þegar ég gat sett köttinn í fangið á Davíð,“ segir Valgeir sem ítrekar hve hjálpsamt fólkið á svæðinu hafi verið. 

„Mér finnst svo áhugavert hvað við fundum fyrir mikilli hlýju frá fólkinu í sumarbústaðahverfinu,“ segir hann og nefnir einnig Ágúst og Jason Kristin í Öndverðanesi og Arndísi hjá Villiköttum. 

Á þessari mynd má sjá á ólinni hversu mikið kötturinn …
Á þessari mynd má sjá á ólinni hversu mikið kötturinn hafði horast.

Dýralæknar höfðu áhyggjur

Af Gosa er það að frétta að hann hefur fengið góða umönnun frá dýralæknum eftir helgina. Líklega var hann ekki endanlega úr lífshættu fyrr en í gær að sögn Valgeirs.

Eigendurnir fóru rólega í að gefa kettinum að borða þar til hann komst til dýralæknis svo viðbrigðin yrðu ekki of mikil. Dýralæknarnir höfðu áhyggjur af því að einhver líffæri kynnu að vera um það bil að gefa sig en nú virðist ljóst að svo sé ekki. 

Eigendurnir eru með birgðir af fæðubótarefnum fyrir dýr, kalíum fyrir hjartað og eitt og annað. Gosi er því líklegur til að braggast á næstunni og verður eflaust farinn að kanna  Njarðvík og nágrenni gaumgæfilega áður en langt um líður. Með mikla lífsreynslu í farteskinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert