Á skjön við íslenskt réttarfar og stjórnskipan

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstaða yfirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu, þess efnis að íslenska ríkið hafi brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmálans við meðferð máls fyrir Landsrétti, kemur Sigríði Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra ekki á óvart.

Sigríður var ráðherra þegar Landsrétti var komið á fót og tilnefndi þá fimmtán manns til að gegna embætti dómara, sem Alþingi staðfesti, en í tilviki fjögurra dómara af þessum fimmtán hafði hæfnisnefnd metið aðra hæfari.

Litið framhjá niðurstöðu Hæstaréttar

Sigríður var viðstödd málflutninginn í febrúar og sagðist við það tilefni ekki búast  við öðru en að dómurinn yrði staðfestur.

„Það sagði ég í ljósi þess að þetta er ekki hefðbundinn dómstóll í þeim skilningi sem við leggjum í það hugtak. Þarna er sami dómari að endurskoða eigin dóm og það er sá sem kemur frá Íslandi og hefur mest vægi í þessum dómi,“ segir hún í samtali við mbl.is í dag.

„Í öllu falli kemur þetta mér ekki á óvart. Þessi niðurstaða byggir alfarið á dómi Hæstaréttar í skaðabótamáli sem féll í desember 2017,“ bætir hún við og bendir á að sá dómur hafi verið kveðinn upp af setudómurum og aðeins einum embættisdómara.

„Dómstóllinn lítur algjörlega fram hjá, eða hafnar í raun algjörlega, seinni tíma niðurstöðu Hæstaréttar frá því í maí 2018, þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að þeir annmarkar sem Hæstiréttur hafði áður komist að að hefðu verið í aðdraganda skipunarinnar – þeir hefðu ekki leitt til þess að skipunin sjálf væri ólögmæt.

MDE hafnar þessari seinni niðurstöðu alfarið og það er einfaldlega á skjön við íslenskt réttarfar og stjórnskipan.“

Engar bætur og ekki skylt að endurupptaka

Sigríður hefur áður fullyrt að um sé að ræða pólitískt at frá dómstólnum í Strassborg.

„Að því leyti að dómstóllinn sjálfur er á einhverri vegferð við að víkka út gildissvið mannréttindasáttmálans. Þessi niðurstaða er auðvitað bara liður í þeirri vegferð.“

Hún bendir á að dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að maður hafi verið dæmdur hér á landi til fangelsisvistar, eftir óréttláta málsmeðferð fyrir dómi.

„En allt að einu er komist að þeirri niðurstöðu að hann eigi ekki rétt á neinum bótum. Þótt það hafi verið brotin á honum mikilvægustu réttindi manna, mannréttindi.“

Sigríður bætir við að frekari stoðum sé rennt undir að hér sé um að ræða pólitískt at, þegar dómstóllinn tekur sérstaklega fram að ekki beri að túlka niðurstöðuna á þann hátt að taka beri öll önnur mál Landsréttar upp að nýju.

„Það kann að vera að þetta hafi verið eina leiðin til að fá alla dómarana með í þessa vegferð. Það hafi verið með þeim hætti að taka fram að þetta myndi ekki hafa neinar afleiðingar,“ segir hún.

„Því það liggur ljóst fyrir að ef það hefði ekki verið, þá væri auðvitað verið að ganga fullkomlega inn á íslenska stjórnskipan. Mér finnst þessi niðurstaða því renna enn frekari stoðum undir það sem ég hef haldið fram, um hið pólitíska at sem fer fram í Strassborg þessi misserin.“

Dómstóllinn girði sig fyrir gagnrýni

Við lestur dómsins segir Sigríður það óljóst hvort dómurinn eigi við um fjóra af þeim fimmtán dómurum sem skipaðir voru við Landsrétt, eða alla fimmtán. Hún bendir á að svo virðist sem dómstóllinn vilji ekki að dómurinn hafi neinar raunverulegar afleiðingar.

„MDE ætlast greinilega ekki til þess að menn geri nokkurn skapaðan hlut með þetta,“ segir hún.

Með því að taka sérstaklega fram að ekki sé gerð krafa til íslenska ríkisins um að taka upp önnur mál bendir hún á að dómstóllinn sé að girða sig fyrir helstu gagnrýninni sem upp hefði getað komið.

„Og til hvers eru þá refirnir skornir?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert