Áritun í höfn en missir af fyrsta leiknum vegna sóttkvíar

Arnór Ingvi Traustason og Emre Can í leik Íslands og …
Arnór Ingvi Traustason og Emre Can í leik Íslands og Þýskalands í Duisburg í mars. AFP

Bandaríska knattspyrnufélagið New England Revolution skýrði frá því í kvöld að Arnór Ingvi Traustason væri væntanlegur í raðir þess um helgina.

New England Revolution gekk frá kaupum á landsliðsmanninum frá Malmö í síðasta mánuði en hann hefur síðan þurft að bíða eftir því að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Í millitíðinni fór hann með íslenska landsliðinu til Þýskalands, Armeníu og Liechtenstein.

Bandaríska félagið segir á heimasíðu sinni að Arnór sé búinn að fá áritunina, komi til landsins um helgina og eigi að geta hafið undirbúning fyrir tímabilið. Arnór þurfti að byrja á að fara í sjö daga sóttkví, þar hafi hann leyfi til að æfa einn síns liðs en geti ekki komið til móts við liðsfélagana fyrr en að þeim tíma loknum.

Arnór mun því að óbreyttu ekki vera með New England í fyrsta deildaleiknum á nýju tímabili en liðið á að sækja Chicago Fire heim laugardaginn 17. apríl.  Þá missir hann af síðasta æfingaleiknum fyrir tímabilið sem er nú á laugardaginn gegn Los Angeles FC, en lið New England lýkur þar átján daga æfingaferð til Kaliforníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert