„Tekur sinn tíma að klára þetta“

Jarðhræringar við Þorbjörn gætu haldið áfram þótt landris hafi minnkað.
Jarðhræringar við Þorbjörn gætu haldið áfram þótt landris hafi minnkað. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er eins og við var að bú­ast,“ seg­ir Ármann Hösk­ulds­son, eld­fjalla­fræðing­ur og pró­fess­or við HÍ, um minna landris síðustu daga á svæðinu við Þor­björn og Svartsengi á Suður­nesj­um. 

Hægt hef­ur á landrisi og af­lög­un við Þor­björn og Svartsengi und­an­farna daga, en stöðugt landris hafði mælst þar síðustu vik­ur og Þor­björn lyfst um allt að 60 milli­metra síðan í apríl.

Ármann seg­ir að það gefi ekki til kynna að jarðhrær­ing­um á svæðinu sé lokið.

„Ég held að það sé eðli­legt í at­b­urðarás­inni, henni er ekk­ert lokið. Hún hófst fyr­ir tveim­ur árum og fór á skrið á síðasta ári og svo tek­ur sinn tíma að klára þetta,“ seg­ir Ármann.

Hann seg­ir að skjálft­arn­ir gangi upp og niður í hrin­um og það segi lítið til um virkn­ina á svæðinu.

Ármann Höskuldsson, eld­fjalla­fræðing­ur og pró­fess­or við HÍ.
Ármann Hösk­ulds­son, eld­fjalla­fræðing­ur og pró­fess­or við HÍ. mbl.is/​Golli

Áður hef­ur komið fram að kviku­söfn­un á sér stað ein­hvers staðar und­ir Reykja­nes­inu og hún veld­ur landris­inu. Á fimmtán til tutt­ugu kíló­metra dýpi und­ir Fagra­dals­fjalli er að eiga sér stað kviku­söfn­un og gas frá henni gæti verið að leita upp í átt­ina að Svartsengi. Þá er einnig mögu­legt að það sé hluti af kvik­unni, en ekki bara gasið, sem leiti upp und­ir Svartsengi og valdi þar landrisi.

„Við bíðum bara“

Ármann seg­ir mestu læt­in í Eld­vörp­un­um á Reykja­nes­inu og þar sé þensl­an mik­il.

„Við bíðum bara, það er ekekrt annað að gera. Það þarf vænt­an­lega ein­hver meiri þensla að eiga sér stað áður en eitt­hvað ger­ist,“ seg­ir Ármann.

Bæj­ar­yf­ir­völd í Grinda­vík funda í vik­unni með al­manna­vörn­um, lög­reglu, jarðvís­inda­mönn­um og öðrum viðbragðsaðilum um mögu­leg­ar varn­ir við Grinda­vík og Svartsengi ef verður af eld­gosi rétt við bæ­inn.

Ármann seg­ir mik­il­vægt að nýta tím­ann vel í að und­ir­búa áður en eitt­hvað ger­ist og því sé gott að stilla streng­ina og fara yfir viðbragðsáætlan­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert