„Þetta er eins og við var að búast,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og prófessor við HÍ, um minna landris síðustu daga á svæðinu við Þorbjörn og Svartsengi á Suðurnesjum.
Hægt hefur á landrisi og aflögun við Þorbjörn og Svartsengi undanfarna daga, en stöðugt landris hafði mælst þar síðustu vikur og Þorbjörn lyfst um allt að 60 millimetra síðan í apríl.
Ármann segir að það gefi ekki til kynna að jarðhræringum á svæðinu sé lokið.
„Ég held að það sé eðlilegt í atburðarásinni, henni er ekkert lokið. Hún hófst fyrir tveimur árum og fór á skrið á síðasta ári og svo tekur sinn tíma að klára þetta,“ segir Ármann.
Hann segir að skjálftarnir gangi upp og niður í hrinum og það segi lítið til um virknina á svæðinu.
Áður hefur komið fram að kvikusöfnun á sér stað einhvers staðar undir Reykjanesinu og hún veldur landrisinu. Á fimmtán til tuttugu kílómetra dýpi undir Fagradalsfjalli er að eiga sér stað kvikusöfnun og gas frá henni gæti verið að leita upp í áttina að Svartsengi. Þá er einnig mögulegt að það sé hluti af kvikunni, en ekki bara gasið, sem leiti upp undir Svartsengi og valdi þar landrisi.
Ármann segir mestu lætin í Eldvörpunum á Reykjanesinu og þar sé þenslan mikil.
„Við bíðum bara, það er ekekrt annað að gera. Það þarf væntanlega einhver meiri þensla að eiga sér stað áður en eitthvað gerist,“ segir Ármann.
Bæjaryfirvöld í Grindavík funda í vikunni með almannavörnum, lögreglu, jarðvísindamönnum og öðrum viðbragðsaðilum um mögulegar varnir við Grindavík og Svartsengi ef verður af eldgosi rétt við bæinn.
Ármann segir mikilvægt að nýta tímann vel í að undirbúa áður en eitthvað gerist og því sé gott að stilla strengina og fara yfir viðbragðsáætlanir.