Sex milljóna sekt fyrir ummæli um dómara

Jude Bellingham leikur með Borussia Dortmund.
Jude Bellingham leikur með Borussia Dortmund. AFP

Jude Bellingham, enski táningurinn sem leikur með þýska knattspyrnuliðinu Dortmund, hefur fengið þunga sekt fyrir ummæli sín við dómarann Felix Zwayer eftir leik gegn Bayern München um síðustu helgi.

Dortmund tapaði leiknum 3:2 en Zwayer hafnaði kröfum leikmanna Dortmund um vítaspyrnu og dæmdi síðan vítaspyrnu á liðið rétt á eftir. 

Í viðtali við Viaplay eftir leikinn sagði Bellingham: „Þið látið dómara sem hefur áður verið staðinn að svindli fá stærsta leikinn í Þýskalandi. Við hverju búist þið? Þetta var ekki vítaspyrna að mínu mati og það er hægt að skoða mörg atvik í þessum leik."

Zwayer var árið 2005 settur í hálfs árs bann frá dómgæslu eftir að hafa átt hlut að hagræðingu úrslita.

Þýska knattspyrnusambandinu var ekki skemmt og ummælin voru tekin fyrir af aganefnd þess. Niðurstaðan varð sú að Bellingham, sem er 18 ára gamall, yrði sektaður um 40 þúsund evrur, jafnvirði tæplega sex milljóna íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert