Kvöddu fyrstu deildina með sigri

Sigurður Arnar Magnússon, til vinstri, skoraði sigurmark ÍBV.
Sigurður Arnar Magnússon, til vinstri, skoraði sigurmark ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn kvöddu 1. deild karla í kvöld með góðum útisigri á Gróttu á Seltjarnarnesi, 3:2, í næstasíðasta leik deildarinnar á árinu 2021.

Viðureign liðanna hafði áður verið frestað og var síðan seinkað um sólarhring í gær vegna veðurs. 

Sigurður Grétar Benónýsson kom ÍBV yfir strax á 2. mínútu en eftir hálftíma leik var Grótta komin í 2:1 með mörkum frá Birni Axel Guðjónssyni og Kjartani Kára Halldórssyni.

Gróttumenn skoruðu sjálfsmark þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og skömmu fyrir leikslok skoraði varnarmaðurinn Sigurður Arnar Magnússon sigurmark ÍBV.

Eyjamenn fengu því 47 stig, ellefu stigum minna en meistaralið Fram, en þessi tvö lið leika í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Grótta er í fimmta sæti deildarinnar með 35 stig.

Þetta var kveðjuleikur Helga Sigurðssonar sem hefur þjálfað ÍBV undanfarin tvö ár en ákvað fyrir nokkru að hætta störfum að þessu tímabili loknu.

Keppni í 1. deild karla lýkur á morgun þegar Vestri mætir Kórdrengjum á Ísafirði. Vestri getur þar náð fimmta sætinu af Gróttu með jafntefli en þyrfti sex marka sigur til að ná fjórða sætinu af Kórdrengjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert