Loka börum og veitingastöðum í Katalóníu

Katalónar halda uppi merkjum héraðsins á tímum kórónaveiru sem fyrr.
Katalónar halda uppi merkjum héraðsins á tímum kórónaveiru sem fyrr. AFP

Veitingastöðum og börum í Katalóníu á Spáni verður lokað í 15 daga vegna fjölgunar kórónuveirusmita undanfarna daga. Þetta hefur héraðsstjórn Katalóníu fyrirskipað. 

Spánverjar glíma nú við mikinn fjölda smita og eitt hæsta hlutfall smitaðra innan Evrópusambandsins eða tæp 900.000 smit og yfir 33.000 dauðsföll af völdum Covid-19. 

Aðgerðirnar taka gildir aðfaranótt föstudags og munu gilda í 15 sólarhringa til að byrja með. Pere Aragones, starfandi forseti heimastjórnar Katalóníu, segir aðgerðirnar sársaukafullar en nauðsynlegar.

Lokanir víða í Evrópu

Til svipaðra aðgerða kom í Hollandi í dag og Norður-Írar tilkynntu fjögurra vika lokun kráa og veitingastaða. Þá var öllum veitingastöðum og krám lokað í París í síðustu viku.

Fjöldi smita tók að aukast í sumar í seinni bylgju kórónuveirusmita í Katalóníu í sumar. Útlit var fyrir að tök hefðu náðst á útbreiðslu smita eftir útgöngubann í borgum á borð við Barcelona og slakað var á aðgerðum eftir að smitum tók að fækka. 

Nú hefur fjöldi smita tekið að hækka snarpt aftur undanfarna daga. Aragones segir einnig að ákveðið hafi verið að grípa til þessara ráðstafana nú, til þess að þurfa ekki að grípa til algjörs útgöngubanns.

Starfandi forseti heimastjórnar Katalóníu Pere Aragones, gætir að sóttvörnum.
Starfandi forseti heimastjórnar Katalóníu Pere Aragones, gætir að sóttvörnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert