„Einhver mesta þvæla sem ég hef heyrt“

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings R.
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings R. Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, var skiljanlega svekktur þegar mbl.is náði honum í viðtal eftir dramatískt jafntefli við Breiðablik í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld, 2:2.

„Þetta var 2:2 jafntefli þannig það er svosem ekkert hræðilegt að gera jafntefli hérna en miðað við hvernig leikurinn var að fjara út að þá líður okkur eins og við höfum tapað leiknum. Maður fer svo í viðtölin við ykkur fjölmiðlamenn eftir leik og lætur allt flakka, stundum er það bara fínt að fá að koma þessu öllu frá sér en það sáu allir hvað var í gangi hér í kvöld. En svona er fótboltinn maður, þetta er alveg magnað.“

Arnar var ósammála Óskari Hrafni, þjálfara Breiðabliks, að Blikar hafi verið betri aðilinn í leiknum í kvöld en sagðist samt fyrirgefa kollega sínum að hann skyldi segja það í fjölmiðlum.

„Það er einhver mesta þvæla sem ég hef heyrt að þeir hafi verið með einhverja stjórn á þessum leik. Hvað er að stjórna leik? Að vera að gutla með boltann fyrir utan þeirra boga nákvæmlega þar sem við vildum hafa þá? Ef að menn horfa á þennan leik aftur þá sjá þeir að það er einn leikmaður frá þeim sem er inni í okkar vítateig þegar þeir eru eitthvað að gutla með boltann, þannig það var nákvæmlega engin hætta á að eitthvað myndi gerast.

En ég fyrirgef þeim, það eru miklar tilfinningar í kringum þessa leiki og menn fara að tala einhverja tóma þvælu í einhverju tilfinningarússi. Menn fara svo að horfa á leikinn aftur á morgun og sjá þá að þetta var mjög fagmannlega leikinn leikur af okkar hálfu.“

Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings R., fékk rautt spjald undir lok leiks. Arnar sagði sjálfur að hann byði upp á leiðinlegt svar við spurningu fréttaritara um hvað hefði gerst.

„Veistu það, ég ætla að koma með klassískt og leiðinlegt svar. Ég bara sá ekki hvað gerðist því ég var of mikið í því að rífast í dómaranum og er því miður ekki með augu í hnakkanum.“

Fréttaritari spurði Arnar hvort hann hafi fengið staðfest að einhver spjöld hafi farið á loft eftir leik og staðfesti hann að Logi Tómasson hafi fengið rautt spjald fyrir að hrinda Halldóri Árnasyni aðstoðarþjálfara Breiðabliks.

„Ég held að menn geti ekkert verið hissa yfir því að það hafi verið einhverjar tilfinningar hérna eftir leik. Það er svo fyndið með þessa dómara að þegar þeir eiga slæman leik, sem þeir svo sannarlega áttu í dag, þeir áttu bara verulega slæman leik og það hallaði verulega á okkar leik. Svo eru þeir alltaf jafn hissa ef það verða einhverjar ryskingar eftir svona leik, ég er ekki að reyna að réttlæta að eitthvað svona hafi komið uppá en ef að menn ætla að fara að dæma leikmenn í bann og svona eftir leiki þegar svona mikill hiti er í gangi þá finnst mér það bara rangt.

Ég lét nokkur vel valin orð falla í sjónvarpinu áðan og ég held að ég sé búinn að segja nóg hvað það varðar en mér finnst dómarar á Íslandi heilt yfir vera að standa sig vel en mér finnst þeir klikka svo oft á stórum atriðum. Það pirrar mig ógeðslega mikið.“

Arnar er mjög ánægður með hvar Víkings-liðið stendur á þessari stundu.

„Það kemur smá pása í mótið eftir 11. júní og ef við erum að fara með fimm stiga forskot sem við stefnum á að vera með og kannski komnir í undanúrslit í bikar þá er það bara stórkostlegt, það er ekkert flóknara en það. En menn eru heitir núna og svo fara menn á koddann og róa sig niður og þá tekur raunveruleikinn við. Þá átta menn sig á að raunveruleikinn er sá að við erum með fimm stiga forskot á toppnum og við erum búnir að spila vel, þannig að heilt yfir erum við bara í toppmálum.“

Danijel Dejan Djuric virðist elska að spila á móti Breiðabliki og skoraði hann gott mark í dag. Arnar segir að Daníel spili alltaf mjög vel á móti Breiðabliki.

„Danijel er bara toppleikmaður og flottur ungur strákur. Hann á margt eftir ólært ennþá en það er eitthvað á þessum velli sem kveikir aðeins meira í honum. Þegar það var ljóst að Gunnar Vatnhamar gæti ekki spilað þá var það frekar auðvelt val að setja hann í liðið, hann kemur alltaf vel upplagður í þessa leiki.“ sagði Arnar Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert