„Fólk er að sætta sig við grímurnar“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna. Kristinn Magnússon

Innan við tíu ábendingar vegna brota á sóttvarnalögum berast almannavörnum á degi hverjum. Fer þeim hratt fækkandi eftir holskeflu tilkynninga fyrst eftir að sóttvarnareglur voru hertar að nýju. Algengast er að málin nú snúi að grímuskyldu, of mannmargt sé inni í verslunum og að fólk sé ekki að virða tveggja metra reglu í biðröðum.

Flestar tilkynningar um sóttkvíarbrot reynst rangar 

„Í langflestum tilfellum eru það viðskiptavinir sem eru að tilkynna þetta. Þeir eru eitthvað óöruggir og spyrja hvort þetta eða hitt megi,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.  Hann segir að einnig sé eitthvað um tilkynningar þar sem kvartað er undan því að fólk sé ekki að sinna sóttkví. „Langflestar tilkynningar um brot á sóttkví hafa reynst rangar,“ segir Víðir. 

Í heild hafa 150 verið sektaðir fyrir brot á sóttkví en um þrjú þúsund tilkynningar hafa borist. „Í mörgum tilfellum er fólk sektað í tengslum við brot í öðrum málum eins og þegar fólk er tekið fyrir umferðarlagabrot. Kerfið okkar flaggar þegar viðkomandi á að vera í sóttkví,“ segir Víðir.   

En má fólk ekki keyra þótt það sé í sóttkví? 

„Það fer eftir því hvað þú ert að gera. Þú mátt fara í nauðsynlegan bíltúr eins og þegar þú ferð í sýnatöku. En það er ekki ætlast til þess að þú sért bara á rúntinum,“ segir Víðir.

Enginn grímulaus verið sektaður 

Fyrst eftir að grímuskyldan hófst bar nokkuð á því að mótþróaseggir gerðu háreysti í verslunum og vildu ekki setja upp grímur. Jafnvel varð starfsfólk fyrir barðinu á reiði viðskiptavina. Víðir segir að lítið sem ekkert hafi borið á því að undanförnu. „Fólk er að sætta sig við grímurnar og er ekki að láta þetta pirra sig. Við erum aðeins að fá tilkynningar um að fólk sé að henda þessu frá sér á götuna,“ segir Víðir. 

Að sögn Víðis hefur enginn verið sektaður fyrir að vera ekki með grímu en höfð hafa verið afskipti af grímulausu fólki og það beðið um að setja upp grímu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert