Ísbjörn truflaði fermingarveislu

„Ég er full þakklætis fyrir að hafa fengið að búa …
„Ég er full þakklætis fyrir að hafa fengið að búa á Grænlandi í aldarfjórðung. Ég átti þar mjög góða daga og mun eiga áfram, því ég missi aldrei tengsl við Grænland,“ segir Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt sem bjó á Grænlandi í 25 ár. mbl.is/Ásdís

Það var einn fallegan vetrardag að blaðamaður fór til fundar við Kristjönu Guðmundsdóttur Motzfeldt á Kattakaffihúsinu í miðbænum. Þar var notalegt að spjalla og drekka kaffi innan um syfjaða ketti sem létu gestina að mestu í friði. Kristjana stendur á sjötugu og nýtur þess að vera komin á eftirlaun. Hún er létt og afslöppuð og blaðamaður fær strax á tilfinninguna að þar sé á ferð sterk kona. Kristjana bjó í aldarfjórðung á Grænlandi en flutti heim árið 2017, sjö árum eftir andlát eiginmannsins, forsætisráðherrans Jonathans Motzfeldts. Grænland kallaði hana þó til sín löngu áður en þau tóku saman því örlögin beindu henni til landsins strax upp úr tvítugu.

Hótelfræði ekki málið

Kristjana er fædd og uppalin að mestu í Reykjavík, en bjó þó víða um land, enda var faðir hennar síldarskipstjóri.
„Á meðan pabbi elti síldina á sjó eltum við mamma og systir mín síldina frá landi, en bræður mínir voru sendir í sveit,“ segir Kristjana.

„Eftir stúdentspróf tók ég inntökupróf í háskóla í Glasgow í hótelfræðum og komst inn. En um sumarið fékk ég vinnu á Hótel Sögu og vann þar í gestamóttökunni og komst fljótt að því að þetta væri ekkert fyrir mig,“ segir hún og brosir.

„Til að gera langa sögu stutta hitti ég gamlan kennara úr landsprófi sem var þá deildarstjóri á Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Ég spurði hann hvort hann gæti útvegað mér vinnu og hann tók vel í það. Og ég byrjaði þar vorið 1976 og vann við gróðurrannsóknir. Strax sumarið eftir vorum við komin með fimm ára verkefni á Suður-Grænlandi,“ segir Kristjana og má þá segja að örlög hennar hafi verið ráðin.

Ég heillaðist strax!

„En til Grænlands fórum við á hverju ári og var ég þar allt frá þremur vikum og upp í tvo mánuði í hvert sinn. Þarna eru engir vegir á milli bæja þannig að við sigldum á milli og fórum víða í land til að vinna við beitarrannsóknir og kortleggja gróður. Beitarþolið var helmingi meira en fjöldi sauðfjár sagði til um, og er enn þannig í dag. Það er eins og Eiríkur rauði segir: þarna er grænt milli fjalls og fjöru! Inni í fjörðum þarna að sumri til er oft 20-25 stiga hiti,“ segir Kristjana og segist strax hafa fallið fyrir landinu. 

Kristjana heillaðist af fegurð Grænlands og ósnortinni náttúru.
Kristjana heillaðist af fegurð Grænlands og ósnortinni náttúru. Ljósmynd/Kristjana

„Ég heillaðist strax! Ég man þegar ég fór allra fyrst, en það var dagsferð til Kulusuuk. Ég fór frá Reykjavíkurflugvelli í ausandi rigningu en eftir klukkutíma flug létti til og birtist þá Austur-Grænland með sínu alpalandslagi. Og svo ísinn! Við lentum í blankalogni, sól og hita,“ segir Kristjana og segir eitthvað sérstakt við landið.

„Það er voða erfitt að lýsa Grænlandi. Þetta er land sem þú þarft að upplifa. Það er svo stórt og það er svo mikið og maður upplifir svo sterkt að maður er hluti af náttúrunni.“

Boðið í mat hjá Jonathan 

Kristjana vann hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins í tæpa tvo áratugi og að mestu hér á landi. 

Varstu þarna á þessum árum búin að kynnast Jonathan?

„Það má rekja ástæðu okkar kynna til þess að það var farið með þetta fimm ára verkefni til Jonathans. Þá var hann prestur á Suður-Grænlandi og sat líka í gamla landsráðinu, kosinn 1971, áður en heimastjórn og landsþing var stofnað 1979. Nema það var svo ákveðið að setja á stofn tvær sérstakar nefndir í landsráðinu og Jonathan fór fyrir annarri nefndinni. Sú nefnd átti að kanna framtíðarmöguleika landbúnaðarins en Jonathan var einmitt frá Suður-Grænlandi þar sem landbúnaður er stundaður. Hin nefndin átti að kanna framtíðarmöguleika fyrir veiðimennsku. Það gerðist aldrei neitt þar en Jonathan hafði samband við Ísland og vildi sækja þekkingu til Íslands. Það var svo Landvernd sem bauð honum til Íslands 1975 og árið eftir var svo ákveðið að Rannsóknarstofnun landbúnaðarins færi út í þetta rannsóknaverkefni til fimm ára í samvinnu við tilraunastöðina í Upernaviarsuk,“ segir hún.

„Jonathan og hans þáverandi kona buðu okkur í mat í lok þessarar þriggja vikna vinnuferðar fyrsta sumarið,“ segir hún um þeirra fyrstu kynni.

Hún segist lítið hafa spáð í manninn á þeim tímapunkti, enda harðgiftur. Löngu síðar breyttust aðstæður og ástin barði á dyr.

Þurfti að ganga á eftir mér

Eftir að þessu fimm ára verkefni lauk hélt Kristjana eftir sem áður góðu sambandi við vini sína á Grænlandi.

„Svo var það þannig að Búnaðarsamband Grænlands varð 75 ára árið 1990 og okkur var nokkrum boðið til að taka þátt í hátíðarhöldunum,“ segir Kristjana og segir veisluna hafa staðið yfir í viku. Mikið var um dýrðir en einnig voru fundir og fyrirlestrar. Jonathan Motzfeldt, sem var þá búinn að gegna stöðu forsætisráðherra, var staddur við hátíðarhöldin. Hann hafði skilið nokkrum árum áður þegar þarna er komið sögu. Amor var þar á ferð og ástin kviknaði á milli hans og Kristjönu en það liðu þó tvö ár þar til hún flutti út til hans.

„Ég er þarna tæplega fertug og alls ekki tilbúin að fara að flytja til Grænlands,“ segir Kristjana og brosir.

Jonathan Motzfeldt og Kristjana giftu sig 1992 en hann lést …
Jonathan Motzfeldt og Kristjana giftu sig 1992 en hann lést árið 2010. Kristjana bjó áfram í Nuuk til ársins 2017. Ljósmynd/Aðsend

„Hann þurfti dálítið að ganga á eftir mér. En veistu, þessi ákvörðun að flytja til Grænlands er ein sú besta sem ég hef tekið. Ég bjó svo þar frá 1992 til 2017. Þetta eru 25 ár!“

Kristjana og Jonathan bjuggu öll sín ár saman í höfuðborginni Nuuk.

„Jonathan hafði verið í leyfi frá prestsstörfum frá 1979 og fór aldrei aftur í það starf en fór gjarnan í hempuna. Við sigldum mikið og áttum bát, en Jonathan var mikill veiðimaður. Pabbi hans var góður veiðimaður og fór hann á veiðar á sínum kajak. Jónatan veiddi allt; fisk, seli, fugla, hreindýr og sauðnaut,“ segir Kristjana og segir þau hafa ferðast mikið um á bátnum.
„Jonathan vann sem forsætisráðherra og í sumarfríum sigldum við á hverju sumri milli bæja og þá leysti hann prestana af, launalaust. Hann messaði, fermdi, gifti og greftraði,“ segir hún og segir hann hafa verið afar trúaðan. Sjálf segist hún hafa sína barnatrú.
„Við fórum einu sinni saman til Ísraels og það er ógleymanlegt. Hann hafði aldrei komið þangað áður en var langbesti fararstjórinn.“

Hvað var það í fari Jonathans sem heillaði þig?

„Hann var fyndinn og skemmtilegur og alltaf fannst mér best að vera nálægt honum innan um fyrirmenni og kóngafólk. Sagt var um Jonathan að hann talaði eins við háa sem lága og hann hafði einstaka frásagnargáfu og mundi allt sem hann las. Gat oft vitnað beint,“ segir hún.

Jonathan og Össur Skarphéðinsson á góðri stundu. Össur vinnur ötullega …
Jonathan og Össur Skarphéðinsson á góðri stundu. Össur vinnur ötullega að því að efla tengsl á milli Grænlands og Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Hann gat verið fljótur upp en var svo fljótur niður og var þekktur fyrir að hann erfði aldrei við nokkurn mann ef ósætti var mikið. Hann hafði mikið skap en gat alltaf horfst í augu við fólk, alveg sama hvað gekk á.“

Alls staðar vel tekið

Á Grænlandi fékk Kristjana fyrst vinnu á tilraunastöð á Suður-Grænlandi.

„Ég var þar sumarið 1992, sumarið sem við giftum okkur. Við fórum svo til Nuuk um haustið þegar þingið byrjaði, en hann var þá ekki forsætisráðherra. Hann datt út sem forsætisráðherra 1991 til 1997 en var ásamt þingmennskunni bæði stjórnarformaður fyrir Air Greenland og KNI, Grænlandsversluninni. Svo kom hann aftur inn sem forsætisráðherra á árunum 1997 til 2002,“ segir hún.

„Mér var alls staðar vel tekið og almennt er Íslendingum vel tekið á Grænlandi. Þeir finna kannski einhverja samkennd með okkur. Við erum komin aðeins lengra varðandi sjálfstæði, sem er það sem allir stefna að, en það er spurning um fjárhagslegt sjálfstæði. En þeir hafa smám saman verið að fara eins langt eins og þeir geta, og eiginlega lengra en lög og reglugerðir kveða á um, til að mynda í utanríkismálum sem heyra undir Danmörku. Þeir eru í norðurheimskautsráðinu, en Jonathan var með þegar það var sett á laggirnar,“ segir hún.

„Á tímabili voru Grænlendingar settir til hliðar, sem þeir vildu ekki sætta sig við. En nú er það þannig að danski utanríkisráðherrann er með Grænlending og Færeying hvorn sínum megin við sig á ársfundi heimskautsráðsins,“ segir Kristjana, sem segist eiga eftir að sjá Grænlendinga fá algjört sjálfstæði.

Hér má sjá Motzfeldt-hjónin ásamt dönsku konungshjónunum og franska utanríkisráðherranum …
Hér má sjá Motzfeldt-hjónin ásamt dönsku konungshjónunum og franska utanríkisráðherranum Hubert Vedrine. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir eru svo hrifnir af konungsfjölskyldunni. Enda hefur Margrét Danadrottning sinnt Grænlandi mjög vel.“ 

Ísbjörn í miðri fermingu

Sástu aldrei ísbjörn?

„Bara skotinn. Það er einn fylgifiskur loftslagsbreytinga að ísbirnir eru á vappi við bæi og koma til dæmis bæði inn í Kulusuk og við Scoresbysund. Það er ekkert gaman að fá þá svanga inn í þorp.“

Kristjana segir blaðamanni sögu af ísbirni sem truflaði fermingarveislu.

„Einu sinni var Jonathan við fermingu á Suður-Grænlandi en það eru mikil hátíðarhöld í kringum fermingar. Sveitafermingar fara fram heima undir berum himni og það mætir fjöldi gesta. Eftir ferminguna er veisla sem stendur allan daginn, með hádegismat, hnallþórum í kaffinu, kvöldmat og miklum ræðuhöldum. Það er allt skreytt og allt það besta er borið fram; nóg af hreindýrakjöti og lambakjöti. Þegar Jonathan var búinn að ferma drenginn og fólk er að klára hádegismatinn hringir síminn. Það er hringt frá næsta bæ, sem var svo sem ekkert nálægt því það er bara hægt að komast siglandi þangað. Á línunni er þá sonur bóndans sem segir að það sé ísbjörn fyrir utan bæinn.“

Hér eru hjónin í þjóðbúningum landanna tveggja á leið í …
Hér eru hjónin í þjóðbúningum landanna tveggja á leið í galaveislu til heiðurs Nelsons Mandela í Amalieborg í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

Og hvað var gert?

„Jonathan sagðist sko ekki nenna en allir gestirnir, uppáklæddir í sínu fínasta pússi, drifu sig niður að sjó og um borð í hraðbátana. Já, konurnar í litríkum þjóðbúningum og karlarnir í hvítum anorökkum! Svo var siglt þangað með byssur. Það þurfti að hafa samband til Nuuk til að fá leyfi til að skjóta dýrið, sem fékkst.“

Missi aldrei tengslin

Hvað stendur upp úr þegar þú horfir yfir farinn veg?

„Ég er full þakklætis yfir að hafa fengið að búa á Grænlandi í aldarfjórðung. Ég átti þar mjög góða daga og mun eiga áfram, því ég missi aldrei tengsl við Grænland. Ég horfi björtum augum til framtíðar og veit að samstarf Íslands og Grænlands á eftir að aukast til muna. Við eigum svo margt sameiginlegt. Svo eru ekki nema þrjú hundruð kílómetrar á milli landanna!“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert