Sætir gæsluvarðhaldi vegna síendurtekinna brota á nálgunarbönnum

Landsréttur.
Landsréttur. Hanna Andrésdóttir

Landsréttur staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms um að einstaklingur sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 21. desember 2021 vegna síendurtekinna brota á nálgunarbönnum.

Barnavernd lagði fram kæru á hendur kærða í ágúst í fyrra vegna gruns um að hafa beitt fjórar dætur sínar líkamlegu og andlegu ofbeldi, þá kemur fram að dætur kærða hafi lýst því að faðir þeirra væri mjög oft reiður og beiti þær grófu líkamlegu ofbeldi.

Þá hafi þær borið um að móðir þeirra reyndi stundum að hjálpa þeim en þá beiti kærði hana einnig líkamlegu ofbeldi.

Allar dætur kærða hafa verið í fóstri frá því í ágúst í fyrra og hafa lögreglu ítrekað borist upplýsingar um áreiti kærða gagnvart stúlkunum frá því í maí á þessu ári. Fósturmæður þeirra hafa tilkynnt að kærði væri að hringja í dætur sínar og verið nokkrum sinnum mættur fyrir utan heimili þeirra.

Í rannsóknargögnum hefur ítrekað komið fram að dætur kærða óttist kærða og að hann sé ítrekað að elta, fylgjast með, setja sig í samband við og með öðrum sambærilegum hætti að sitja um dætur sínar hjá fósturforeldrum og í þeirra daglega lífi. Brotaþolar eru börn að aldri og því í sérlega viðkvæmri stöðu. 

Telur að kærði muni halda áfram brotum

Þann 7. júlí var kærða, með ákvörðunum lögreglustjórans á Suðurnesjum, gert að sæta nálgunarbanni gagnvart dætrum sínum, allt til 30. september og voru ákvarðanir staðfestar með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.

Lögreglustjóri telur að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um ítrekuð og alvarleg ofbeldisbrot og önnur brot í nánu sambandi, s.s. umsáturseinelti, hótanir og brot á nálgunarbanni gegn dætrum sínum og móður hennar.

Telur lögreglustjóri að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ólokið í refsivörslukerfinu. Einnig telur lögreglustjóri nauðsynlegt að stöðva brotastarfsemi hans, sem ógnar velferð og friðhelgi barnungra brotaþola málsins.

Lögregla telur yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi sinni áfram sé hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn máls hans stendur yfir og meðferð mála hans fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert