Freyja með flutningaskip í togi

Varðskipið Freyja sinnir nú sínu fyrsta verkefni.
Varðskipið Freyja sinnir nú sínu fyrsta verkefni. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson/Landhelgisgæslan

Varðskipið Freyja er nú með flutningaskipið Francisca í togi áleiðis til Akureyrar. Þetta er fyrsta verkefni varðskipsins Freyju sem hélt í sína fyrstu eftirlitsferð fyrr í vikunni en skipið kom til landsins þann 6. nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Í tilkynningunni segir að bilun hafi komið upp í flutningaskipinu og var leitað til Landhelgisgæslunnar vegna mikillar dráttargetu Freyju sem mun draga skipið til Akureyrar. Skipin lögðu af stað frá Straumsvík um klukkan sjö í kvöld og er áætlað að þau verði komin til Akureyrar á aðfaranótt mánudags.

Hér má sjá þegar skipin lögðu af stað.
Hér má sjá þegar skipin lögðu af stað. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson/Landhelgisgæslan

„Freyja er mjög vel búin dráttarspilum svo taka má stór og öflug skip í tog en dráttargeta skipsins er til að mynda um tvöfalt meiri en dráttargeta varðskipsins Þórs,“ segir í tilkynningunni, en Gæslan birti einnig myndband á YouTube-rás sinni sem sýnir undirbúning verkefnisins fyrr í dag og þegar skipin sigldu af stað um kvöldmatarleytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert